Körfubolti

Tap fyrir Svíum í fyrsta leik á NM - Jón Arnór meiddist

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hlynur og Jakob voru á heimavelli í dag.
Hlynur og Jakob voru á heimavelli í dag. mynd/valli
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spilaði sinn fyrsta leik á Norðurlandamótinu í Sundsvall í dag. Íslensku strákarnir mættu þá heimamönnum frá Svíþjóð og töpuðu með tólf stiga mun, 74-62.

Jafnræði var með liðunum lengi framan af og liðin héldust í hendur í leikhléi, 36-36. Mikið munaði um að Jón Arnór Stefánsson meiddist eftir aðeins þriggja mínútna leik og gat ekkert leikið eftir það.

Stigahæstur Íslendinga var Jakob Örn Sigurðarson með 22 stig en næstur kom Hlynur Bæringsson með 12 stig. Hlynur tók einnig 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar en lenti snemma í villuvandræðum.

Pavel Ermolinskij skoraði 9 stig og tók 10 fráköst, Helgi Magnússon skoraði 5 stig, Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson skoruðu 3 hvor.

Finnur Atli Magnússon, Ólafur Ólafsson, Sigurður Þorsteinsson og Hörður Axel Vilhjálmsson skoruðu 2 stig hver en Hörður fékk sína fimmtu villu í þriðja leikhluta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×