Viðskipti erlent

Ítalía ógnar tilvist evrunnar

Neyðarfundur æðstu embættismanna ESB í dag er til vitnis um að evrusamstarfið hefur aldrei verið í jafnmikilli hættu og nú. Fundurinn fjallar um stöðuna á Ítalíu en hún ógnar nú tilvist evrunnar.

Evran hefur fallið töluvert gagnvart dollar síðan að fréttir fór að berast af neyðarfundinum. Í augnablikinu er gengið um 1,4 dollara fyrir evru en fyrir helgina var gengið 1,45.

Fjallað er um málið á vefsíðu börsen. Þar er haft eftir Jacob Graven aðalhagfræðingi Sydbank að staðan sé alvarleg þar sem Ítalía er eitt af stærstu hagkerfunum á evrusvæðinu, raunar það fjórða stærsta mælt í landsframleiðslu.

„Hagkerfi Ítalíu er þrefalt stærra en samanlögð hagkerfi Grikklands, Írlands og Portúgal. Það væri því ekki vinnandi vegur fyrir önnur ESB lönd að safna saman nægu fé til að bjarga Ítalíu," segir Graven.

Það sem einkum hefur haldið Ítalíu frá sviðsljósinu hingað til er Giulio Tremonti hinn dugmikli fjármálaráðherra landsins.

Það að fjárhagslegur stormur er skollinn á í Ítalíu er einkum vegna orðróms um að Tremonti sé kominn í ónáð hjá Silvio Berlusconi forsætisráðherra og sé jafnvel á leið út úr ríkisstjórn Berlusconi. Einnig er uppi orðrómur um að Tremonti sé sjálfur viðriðinn hneykslismál. Nóg er fyrir af þeim á könnu Berlusconi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×