Veiði

Af örlöxum

Hlutfall laxa <51 cm af öllum lengdarmældum löxum í Selá í Vopnafirði 1975-2010.
Hlutfall laxa <51 cm af öllum lengdarmældum löxum í Selá í Vopnafirði 1975-2010.
Nokkur umræða hefur verið um mjög smáa laxa sem hafa verið að veiðast undanfarin ár.  Sérstaklega hefur verið tekið eftir þessu á Austur- og Norðausturlandi.  Þessir laxar eru margir hverjir innan við 50 cm að lengd og allt niður í 43 cm. Datt sumum jafnvel í hug að hér væru fiskar sem hefðu farið út að vori sem stór gönguseiði og komið inn aftur samsumars. Aðrir sögðu að svona „kettlingar“ hefðu alltaf verið innan um í veiðinni.

Veiðimálastofnun hefur fengið reglulega hreistursýni úr nokkrum ám á A- og NA-landi.  Þegar hreistur af þessum smáu löxum voru skoðuð kom í ljós að þetta voru laxar sem höfðu dvalið eitt ár í sjó eins og hver annar smálax (1. mynd), en virðast hafa lent á svæðum í hafinu þar sem fæðuskilyrði hafa verið slæm.

Til sömu tíðar voru að koma smálaxar sem voru af „eðlilegri“ stærð sem bendir til að allur laxinn fari ekki á sömu beitarslóðir.  Jafnframt virðist hluti af örlöxunum hafa farið yfir á annað ár í sjó og komið sem smáir tveggja ára laxar til baka. Það veldur því að hluti tveggja ára laxa úr sjó verður undir þeim mörkum sem dregin eru á milli smálax og stórlax við úrvinnslu veiðibóka og teljast því smálaxar (2. mynd). Erfitt er að komast hjá því nema nota hreistursýni til leiðréttingar.

Til þess að skoða hvort þetta væri algengara nú en áður voru taldir út laxar sem voru 50 cm eða minni og reiknað hlutfall þeirra af öllum lengdarmældum löxum í Selá í Vopnafirði yfir lengra tímabil (3. mynd). Kom þá í ljós að hlutfallið hefur verið hærra nokkur síðustu ár, miðað við langt tímabil þar á undan.

Frétt af veidimal.is.






×