Real Madrid minnkaði forskot Barcelona á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar niður í fjögur stig í dag er Real vann öruggan útisigur, 0-3, á Athletic Bilbao.
Brasilíumaðurinn Kaká skoraði úr vítaspyrnum á 14. og 54. mínútu. Cristiano Ronaldo skoraði síðan afar smekklegt mark á 69. mínútu.
Þetta var mark númer 39 hjá Ronaldo í vetur en þeim magnaða áfanga hafa aðeins Ferenc Puskas, Alfredo Di Stefano og Hugo Sanchez náð í sögu Real Madrid. Ronaldo er því heldur betur kominn í flottan félagsskap þar.
Vítamörkin hans Kaká voru einnig söguleg því þetta er í fyrsta skipti í rúm fimm ár sem sami maðurinn hefur skorað tvö mörk úr vítum í sama leiknum í spænsku úrvalsdeildinni.
Real hefur spilað tveim leikjum meira en Barcelona sem á leik í kvöld og getur breikkað bilið aftur í sjö stig.
