Fótbolti

Tíu stiga forysta Barcelona

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Messi fagnar marki sínu í kvöld.
Messi fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Lionel Messi var enn og aftur hetja Barcelona er hann tryggði sínum mönnum nauman 1-0 útisigur á Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Barcelona er nú með 71 stig af 76 mögulegum á toppi deildarinnar og tíu stiga forystu á næsta lið, Real Madrid, sem á reyndar leik til góða gegn Malaga annað kvöld. Valencia er svo í þriðja sæti deildarinnar, 20 stigum á eftir Börsungum.

Barcelona hafði fengið nóg af tækifærum til að skora í leiknum en ísinn brotnaði ekki fyrr en Messi skoraði stundarfjórðungi fyrir leikslok með skoti í vítateignum eftir sendingu Adriano.

Þetta var fyrsti sigur Pep Guardiola á Mestalla, heimavelli Valencia, síðan hann tók við stjórn Barcelona en hann lét sig hafa það að koma á völlinn í kvöld þrátt fyrir mikla bakverki.

Barcelona hefur aðeins tapað einum leik í deildinni í vetur, gegn Hercules á heimavelli þann 11. september síðastliðinn. Liðið er því á ótrúlegu skriði í deildinni og virðist fátt geta stöðvað liðið upp úr þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×