Charlie Sheen hefur sett leikferil sinn á hilluna í bili og einbeitir sér að viðskiptum í augnablikinu. Sheen hefur tekið að sér að selja Broquiere kókómjólk á Twitter síðu sinni. Kókómjólkin hefur rokselst eftir að Sheen fór að mæla með henni.
Fjallað er um málið á business.dk. Þar segir að stjarnan virðist hafa fundið sér nýja vinnu til að hafa fyrir salti í grautinn. Sheen er aðallega þekktur í dag fyrir eiturlyfjavandamál, klámmyndastjörnur og árekstra við framleiðendur þáttanna Two and Half Men.
Sheen opnaði Twitter síðu sína fyrir um hálfum mánuði síðan og á örfáum dögum voru milljón manns búnir að lesa hana. Þar er meðal annars að finna mynd af Sheen með Broquiere kókómjólk í hendinni.
Talsmaður Sheen vill ekki gefa upp hvað stjarnan fær fyrir að auglýsa kókómjólkina. Forstjóri Broquiere segir hinsvegar ekki hafa skoðun á líferni Sheen. „Ég veit að hann hefur góðan smekk þegar kemur að kókómjólk,“ segir forstjórinn.
Charlie Sheen selur kókómjólk á Twitter
