Lífið

Klingir í pyngjum poppara

Stjórn listamannalauna tilkynnti í gær hvaða listamenn hefðu hlotið listamannalaun fyrir árið 2011. Alls barst 621 umsókn, sem er ögn minna en í fyrra því þá bárust 712.

Rithöfundarnir Jón Kalman Stefánsson, Sigurbjörg Þrastardóttir og Kristín Ómarsdóttir fá tveggja ára laun úr launasjóði rithöfunda en meðal þeirra sem fá eins árs laun eru Bragi Ólafsson, Einar Már Guðmundsson, Guðrún Eva Mínervudóttir og Kristín Steinsdóttir.

Andri Snær Magnason fær laun í níu mánuði úr sjóðnum en fimm ár eru liðin síðan hann gaf út sína síðustu bók, Draumalandið.

„Ég er búinn með þessi þrjú hundruð slög og gæti svo sem prentað hana í dag. En ég ætla að taka nokkra hringi á hana og hún verður örugglega bara í jólabókaflóðinu," segir Andri Snær í samtali við Fréttablaðið. Bókin ku vera ævintýri fyrir börn og fullorðna og bræðir rithöfundurinn nú það með sér hvort hún eigi að vera eitt bindi eða tvö.

Þjóðþekktir tónlistarmenn fá einnig laun úr launasjóði tónlistarflytjenda en þeim Birni Thoroddsen, Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur, Kjartani Valdemarssyni og Þóru Einarsdóttur hefur öllum verið úthlutað laun til eins árs.

Meðal þeirra sem fá laun til hálfs árs eru söngkonurnar Ólöf Arnalds og Ragnheiður Gröndal auk Samúels Jóns Samúelssonar en hann fær einnig sex mánaða laun úr launasjóði tónskálda eins og Daníel Ágúst Haraldsson og Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, betur þekkt sem Lay Low. Þau Daníel og Lovísa eru bæði að vinna að nýjum plötum eins og Fréttablaðið hefur greint frá.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.