Viðskipti erlent

Windows og Office mala gull fyrir Microsoft

Hagnaður Microsoft jókst um 51% á þriðja ársfjórðungi ársins einkum vegna aukinnar sölu á Windows og Office. Þessi forrit hafa löngum malað gull fyrir tölvurisann á undanförnum árum.

Hagnaður Microsoft á ársfjórðungnum nam 5,4 milljörðum dollara eða um 608 milljörðum kr. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 3,6 milljörðum dollara.

Í uppgjöri Microsoft kemur kemur fram að sala fyrirtækisins hafi aukist um 25% milli ára og náði 16,2 milljörðum dollara á þriðja ársfjórðungi.

Frá því að Microsoft setti Windows 7 fyrir ári síðan hafa 240 milljónir eintaka af því selst og salan á Office pakkanum nam 3,4 milljörðum dollara á þriðja ársfjórðungi.

Nú vinna 89.000 manns hjá Microsoft á heimsvísu en á síðasta ári sagði fyrirtækið 5.800 starfsmönnum upp og var það stærsta hópuppsögnin í 35 ára gamalli sögu Microsoft.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×