Bretar eru eina þjóðin innan ESB sem er mótfallin þessum áformum sambandsins. Málið getur haft mikla þýðingu fyrir fjármálakerfi Bretlands enda eru um 80% fjárfestingar- og vogunarsjóða Evrópu staðsettir í The City í London. Bretar óttast að með hertari reglum muni þessir sjóðir flytja höfuðstöðvar sínar annað t.d. til Sviss eða Miðausturlanda.
Í frétt um málið á vefsíðunni epn.dk segir að aðeins Tékkar hafi stutt við mótbárur Breta gegn samþykkt fjármálaráðherranna.
Vitað var að Bretar væru mótfallnir þessum áformum hinna ESB landanna en fyrir fund fjármálaráðherranna um málið í dag sagði Wolfgang Schäube fjármálaráðherra Þýskalands að Bretar gætu ekkert aðhafst gegn sameiningu hinna ESB landanna í málinu. „Það er verulegur meirihluti sem óskar þess að þessi löggjöf gangi í gegn og telur hana nauðsynlega," segir Schäube.
Margir telja að spákaupmennska af hálfu fjárfestingar- og vogunarsjóða eigi stóran þátt í fjármálakreppunni og því að gengi evrunnar hefur hríðfallið undanfarnar vikur.