Matsfyrirtækið Fitch ratings hefur lækkað lánshæfiseinkunn BP olíufélagsins verulega eða úr AA og niður í BBB. Er einkunin því aðeins tveimur þrepum frá svokölluðum ruslflokki.
Í umfjöllun Guardian um málið segir að þessi lækkun komi í kjölfar þess að bandarískir þingmenn hafa krafist þess að BP komi á fót 20 milljarða dollara sjóð til að standa undir kostnaði vegna olíulekans á Mexíkóflóa.
Í áliti Fitch segir að matsfyrirtækið hafi áhyggjur að of mikill munur verði á langtíma- og skammtímaskuldbindingum BP fari svo að framangreindur sjóður verði stofnaður. Þar að auki eru áhyggjur af því að aðgangur BP að fjármálamörkuðum verði takmarkaður á meðan ekki sé ljóst hver endanlegur kostnaður félagsins í Mexíkóflóa verður