Það á ekki af Tiger Woods að ganga þessa dagana. Nýjasta nýtt er að falsaðar Gatorade-flöskur með nafni Tigers og áletruninni "Ótrúr" hafa fundist í búð í Colorado-fylki í Bandaríkjunum.
Talsmaður Gatorade staðfesti að merkingarnar væru falsaðar en vildi ekki gefa upp hvort það hafi raunverulega verið Gatorade í flöskunum.
Hún vildi heldur ekki segja hversu margar flöskur hefðu fundist né í hvaða búð þær fundust.
Gatorade hefur styrkt Woods um árabil og meðal annars hannað sérstaka Tiger-orkudrykki. Fyrirtækið hefur reyndar ákveðið að hætta með Tiger-drykkina.
Gatorade er eitt af þeim fyrirtækjum sem er enn með Tiger á samningi eftir að upp komst um framhjáhald hans.
Nokkur fyrirtæki hafa þegar bundið enda á samstarf sitt við kylfinginn snjalla.