Þorvaldur Gylfason: Nefndin stóðst prófið Þorvaldur Gylfason skrifar 29. apríl 2010 06:00 Á fundi með rannsóknarnefnd Alþingis í janúar 2009 lýsti ég þeirri skoðun fyrir nefndinni, að hlutverk hennar væri að svipta gagnsærri hulunni af því, sem allir vissu. Ég brýndi fyrir nefndinni, að í útlöndum væri vandlega fylgzt með störfum hennar, þar eð ríkir erlendir hagsmunir væru bundnir við, að nefndin skilaði trúverðugri skýrslu. Hvaða hagsmunir? Erlendir lánardrottnar og sparifjáreigendur biðu mikinn skaða við bankahrunið, auk þess sem aðrar þjóðir hafa eftir hrun lánað Íslendingum mikið fé í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að koma landinu yfir erfiðasta hjallann. Nefndin stóðst prófið. Skýrsla nefndarinnar er ekki hvítþvottur eins og margir óttuðust, úr því að stjórnvöld þvertóku fyrir að fela óháðum erlendum mönnum rannsókn hrunsins og girða þannig fyrir grunsemdir um hlutdrægni. Skýrslan er vandleg greinargerð um ábyrgð bankanna og stjórnvalda á bankahruninu. Höfundar skýrslunnar taka í öllum aðalatriðum undir gagnrýni mína og margra annarra á ríkisstjórnina og Seðlabankann fyrir hrun. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir gamla bankakerfinu og stjórnkerfinu. Hún lýsir gerspilltu og getulausu stjórnkerfi, sem hegðaði sér eins og hundur í bandi auðmannanna. Engin viðbúnaðaráætlunÍ skýrslunni segir svo (1. bindi, bls. 39-41): „…í ríkisstjórn Íslands var allt fram að falli bankanna lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir lok sumars 2007.…Þegar ráðherrar hugðust bæta ímynd íslenska bankakerfisins með þátttöku í opinberri umræðu, einkum erlendis, var það gert án þess að lagt væri mat á fjárhagslegan styrk ríkisins til þess að koma bönkunum til aðstoðar og án þess að fyrir lægju upplýsingar um kostnað við hugsanlegt fjármálaáfall. …þegar á hólminn var komið og bankarnir riðuðu til falls var ekki fyrir hendi sameiginleg viðbúnaðaráætlun stjórnvalda. Sárlega þurfti þá á henni að halda. …Í bréfi Stefans Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar, …kemur fram sú skoðun hans að óskýrt eignarhald ásamt örum vexti á efnahagsreikningi bankanna hafi leitt til hættuástands sem íslensk stjórnvöld hafi hvorki virst átta sig á né fyllilega skilið hvernig mætti mæta." Þessi skoðun sænska seðlabankastjórans á skilningsleysi íslenzkra stjórnvalda var algeng meðal erlendra seðlabankastjóra.Fram kemur í skýrslunni (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn, þar af sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins, reyndust hver um sig skulda bönkunum 100 milljónir króna eða meira, einkum vegna hlutabréfakaupa. Þessir tíu þingmenn skulduðu bönkunum 830 milljónir króna hver að jafnaði. Að auki þágu stjórnmálaflokkarnir og einstakir frambjóðendur þeirra mikið fé af bönkunum og tengdum aðilum fyrir hrun. Bankarnir keyptu sér frið til að fara sínu fram. Vistmennirnir taka völdinSkýrslan lýsir Seðlabankanum eins og vitlausraspítala, þar sem vistmennirnir hafa tekið völdin. Tveir helztu hagfræðingar bankans vitna um „enn eitt ruglið…algjörlega stjórnlaust" (1. bindi, bls. 161-162). Hvergi kemur fram, að hagfræðingarnir hafi hugleitt að hætta störfum í mótmælaskyni. Ekki virðast þeir heldur hafa hugleitt að hætta störfum á fyrri tíð vegna skipunar óhæfra manna í bankastjórnina. Fyrir kom, að hagfræðingar bankans báðu mig að hreyfa mótmælum. Embættiskerfi, þar sem enginn þorir að standa upp, hvað sem á dynur, getur ekki gert fullt gagn, að ekki sé meira sagt. Háskólamenn dönsuðu einnig of margir með bönkunum og stjórnvöldum, sumir gegn greiðslu eða hlunnindum, og gengu með því móti á svig við almennt velsæmi með þjónkun við þrönga sérhagsmuni. Háskólarnir þurfa að herða og virða siðareglur sínar til að reyna að reisa skorður við slíkri háttsemi.Á heildina litið er íslenzku viðskiptasiðferði alvarlega ábótavant. Viðskiptaráð taldi Ísland standa Norðurlöndum „framar á flestum sviðum" skömmu fyrir hrun og heldur áfram að birta leiðbeiningar um hagstjórn eins og ekkert hafi í skorizt. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir berum orðum, að bankarnir hafi brotið lög (2. bindi, bls. 313) og þrír ráðherrar og fjórir embættismenn hafi sýnt vanrækslu (1. bindi, bls. 46). Líklegt virðist, að dómstólar þurfi að fjalla um, hvort niðurstöður skýrslunnar leiði til fangelsisdóma eða ekki. Verði stjórnendur bankanna, ráðherrar og embættismenn dæmdir, getur forseti Íslands náðað bankastjórnendur og embættismenn samkvæmt heimild í stjórnarskrá, en ráðherra getur hann þó ekki náðað nema með samþykki Alþingis. Mér sýnist líklegt, að hvort heldur sýknudómar eða sektardómar og náðun myndu vekja úlfúð og spilla fyrir nauðsynlegri endurnýjun og sátt í samfélaginu. „Dagar linkindarinnar og svika samábyrgðarinnar hljóta að fara að styttast," sagði Bjarni Benediktsson 1934. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun Sigurður Ingi og óverðtryggingin Hjalti Þórisson Skoðun „Útlendingar“ og „þetta fólk“ Jasmina Vajzović Crnac Skoðun Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun Af hverju ég styð Samfylkinguna – og Hannes Sigurbjörn Jónsson Ásbjörn Þór Ásbjörnsson Skoðun Flokkur fólksins vill efla byggð um land allt! Lilja Rafney Magnúsdóttir Skoðun Varnarveggur gegn vonbrigðum Sanna Magdalena Mörtudóttir Skoðun
Á fundi með rannsóknarnefnd Alþingis í janúar 2009 lýsti ég þeirri skoðun fyrir nefndinni, að hlutverk hennar væri að svipta gagnsærri hulunni af því, sem allir vissu. Ég brýndi fyrir nefndinni, að í útlöndum væri vandlega fylgzt með störfum hennar, þar eð ríkir erlendir hagsmunir væru bundnir við, að nefndin skilaði trúverðugri skýrslu. Hvaða hagsmunir? Erlendir lánardrottnar og sparifjáreigendur biðu mikinn skaða við bankahrunið, auk þess sem aðrar þjóðir hafa eftir hrun lánað Íslendingum mikið fé í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að koma landinu yfir erfiðasta hjallann. Nefndin stóðst prófið. Skýrsla nefndarinnar er ekki hvítþvottur eins og margir óttuðust, úr því að stjórnvöld þvertóku fyrir að fela óháðum erlendum mönnum rannsókn hrunsins og girða þannig fyrir grunsemdir um hlutdrægni. Skýrslan er vandleg greinargerð um ábyrgð bankanna og stjórnvalda á bankahruninu. Höfundar skýrslunnar taka í öllum aðalatriðum undir gagnrýni mína og margra annarra á ríkisstjórnina og Seðlabankann fyrir hrun. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir gamla bankakerfinu og stjórnkerfinu. Hún lýsir gerspilltu og getulausu stjórnkerfi, sem hegðaði sér eins og hundur í bandi auðmannanna. Engin viðbúnaðaráætlunÍ skýrslunni segir svo (1. bindi, bls. 39-41): „…í ríkisstjórn Íslands var allt fram að falli bankanna lítið rætt um stöðu bankanna og lausafjárkreppuna sem hófst undir lok sumars 2007.…Þegar ráðherrar hugðust bæta ímynd íslenska bankakerfisins með þátttöku í opinberri umræðu, einkum erlendis, var það gert án þess að lagt væri mat á fjárhagslegan styrk ríkisins til þess að koma bönkunum til aðstoðar og án þess að fyrir lægju upplýsingar um kostnað við hugsanlegt fjármálaáfall. …þegar á hólminn var komið og bankarnir riðuðu til falls var ekki fyrir hendi sameiginleg viðbúnaðaráætlun stjórnvalda. Sárlega þurfti þá á henni að halda. …Í bréfi Stefans Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar, …kemur fram sú skoðun hans að óskýrt eignarhald ásamt örum vexti á efnahagsreikningi bankanna hafi leitt til hættuástands sem íslensk stjórnvöld hafi hvorki virst átta sig á né fyllilega skilið hvernig mætti mæta." Þessi skoðun sænska seðlabankastjórans á skilningsleysi íslenzkra stjórnvalda var algeng meðal erlendra seðlabankastjóra.Fram kemur í skýrslunni (2. bindi, bls. 200-201), að tíu alþingismenn, þar af sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins, reyndust hver um sig skulda bönkunum 100 milljónir króna eða meira, einkum vegna hlutabréfakaupa. Þessir tíu þingmenn skulduðu bönkunum 830 milljónir króna hver að jafnaði. Að auki þágu stjórnmálaflokkarnir og einstakir frambjóðendur þeirra mikið fé af bönkunum og tengdum aðilum fyrir hrun. Bankarnir keyptu sér frið til að fara sínu fram. Vistmennirnir taka völdinSkýrslan lýsir Seðlabankanum eins og vitlausraspítala, þar sem vistmennirnir hafa tekið völdin. Tveir helztu hagfræðingar bankans vitna um „enn eitt ruglið…algjörlega stjórnlaust" (1. bindi, bls. 161-162). Hvergi kemur fram, að hagfræðingarnir hafi hugleitt að hætta störfum í mótmælaskyni. Ekki virðast þeir heldur hafa hugleitt að hætta störfum á fyrri tíð vegna skipunar óhæfra manna í bankastjórnina. Fyrir kom, að hagfræðingar bankans báðu mig að hreyfa mótmælum. Embættiskerfi, þar sem enginn þorir að standa upp, hvað sem á dynur, getur ekki gert fullt gagn, að ekki sé meira sagt. Háskólamenn dönsuðu einnig of margir með bönkunum og stjórnvöldum, sumir gegn greiðslu eða hlunnindum, og gengu með því móti á svig við almennt velsæmi með þjónkun við þrönga sérhagsmuni. Háskólarnir þurfa að herða og virða siðareglur sínar til að reyna að reisa skorður við slíkri háttsemi.Á heildina litið er íslenzku viðskiptasiðferði alvarlega ábótavant. Viðskiptaráð taldi Ísland standa Norðurlöndum „framar á flestum sviðum" skömmu fyrir hrun og heldur áfram að birta leiðbeiningar um hagstjórn eins og ekkert hafi í skorizt. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir berum orðum, að bankarnir hafi brotið lög (2. bindi, bls. 313) og þrír ráðherrar og fjórir embættismenn hafi sýnt vanrækslu (1. bindi, bls. 46). Líklegt virðist, að dómstólar þurfi að fjalla um, hvort niðurstöður skýrslunnar leiði til fangelsisdóma eða ekki. Verði stjórnendur bankanna, ráðherrar og embættismenn dæmdir, getur forseti Íslands náðað bankastjórnendur og embættismenn samkvæmt heimild í stjórnarskrá, en ráðherra getur hann þó ekki náðað nema með samþykki Alþingis. Mér sýnist líklegt, að hvort heldur sýknudómar eða sektardómar og náðun myndu vekja úlfúð og spilla fyrir nauðsynlegri endurnýjun og sátt í samfélaginu. „Dagar linkindarinnar og svika samábyrgðarinnar hljóta að fara að styttast," sagði Bjarni Benediktsson 1934.
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun
Hvert er fóðrið til að skipulögð glæpastarfsemi geti þrifist hér á landi? Jú, villuráfandi stefnulaus ungmenni! Davíð Bergmann Skoðun