Kylfingurinn Anthony Kim virðist smám saman vera að taka við partý-kyndlinum í golfinu af John Daly.
Kim er afar duglegur að skemmta sér og er reglulegur gestur í Las Vegas. Þar er hann sagður drekka fyrir allan seðilinn og síðan fara hamförum í spilavítunum.
Er hann þá með mikil læti og hefur þurft að vísa honum frá er hann gengur of langt.
Hann neyddist til þess að draga sig úr keppni í móti um daginn eftir að hafa verið að skemmta sér fram á morgun degi fyrir mót.
Umboðsmaður hans reyndi að halda því fram að hann væri meiddur. Blöðin í Vegas komust þó að hinu sanna enda var Kim með heljarinnar partý.
Hápunktur teitisins var þegar Kim keypti 25 þúsund dollara kampavínsflösku sem hann ákvað að hella yfir dansgólfið í stað þess að drekka úr henni.