Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, sem er einn efnilegasti kylfingur landsins, mun spila golf með frænku Tiger Woods, Cheyenne Woods, næsta vetur.
Kylfingurinn efnilegi er á leið til Bandaríkjanna þar sem hún mun stunda nám við Wake Forrest-háskólann ásamt því að spila golf fyrir hönd skólans. Með skólaliðinu leikur einmitt Cheyenne Woods en þar sem hún er náskyld besta kylfingi heims er nokkuð vel fylgst með liðinu í bandarískum fjölmiðlum.
Þetta er í dag talinn vera tíundi besti golfháskóli kvenna samkvæmt reiknivél Golfweek og því ljóst að Ólafía Þórunn er á leið í mjög metnaðarfullan skóla þar sem hún ætti að geta tekið framförum.