Stjórn verslunarkeðjunnar JJB Sports hefur ákveðið að víkja Chris Ronnie forstjóra keðjunnar tímabundið frá störfum. Samkvæmt breskum fjölmiðlum á hann vart afturkvæmt í starfið.
Nýlega komst 29% eignarhlutur, sem Ronnie og Exista áttu sameiginlega, í hendur Singer & Friedlander banka Kaupþings í Bretlandi eftir að bankinn gerði veðkall í hlutnum. Samkvæmt frásögnum af þeim gerningi virðist hann hafa verið framkvæmdur án vitundar Ronnie.
Lögfræðingar JJB kanna nú með hvaða hætti Ronnie og Exista misstu hlutinn úr höndum sér.
Í stuttri tilkynningu um málið frá JJB segir einfaldlega að Ronnie hafi verið vikið frá störfum og að frekari tilkynning myndi fylgja þegar ástæða væri til.