Körfubolti

Michael Redd úr leik hjá Milwaukee

Michael Redd
Michael Redd NordicPhotos/GettyImages

Ólympíufarinn Michael Redd hjá Milwaukee Bucks spilar ekki meira með liði sínu á leiktíðinni eftir að skoðun í dag leiddi í ljós að skyttan örvhenta er með slitið liðband í hné.

Redd var í gullliði Bandaríkjanna í Pekiing í sumar og var farinn að finna sitt gamla form eftir að hafa byrjað rólega í haust. Redd var með rúm 25 stig að meðaltali í leik í janúar og 21 stig á leiktíðinni.

Redd er ein besta hreina skytta Bandaríkjanna en hefur verið í nokkru basli með meiðsli síðustu ár.

Hann spilaði 72 af 82 leikjum á síðustu leiktíð en missti úr 29 leiki á tímabilinu þar á undan.

Redd hefur nú lokið keppni í ár eftir aðeins 33 leiki, því hann missti úr 14 leiki fyrr í vetur vegna ökklameiðsla.

Hann er ekki eini leikmaður Milwaukee sem hefur átt í meiðslum, því ástralski miðherjinn Andrew Bogut hefur misst úr 13 leiki vegna bakmeiðsla.

Árangur Milwaukee (22 sigrar - 25 töp) hefur þrátt fyrir þessi áföll verið vonum framar undir stjórn nýja þjálfarans Scott Skiles í vetur, en ljóst er að þessi alvarlegu meiðsli Redd munu reynast liðinu þungur biti að kyngja fram á næsta haust.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×