Körfubolti

Þrenna hjá LeBron James þriðja leikinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er allt reynt til þess að stoppa LeBron James.
Það er allt reynt til þess að stoppa LeBron James. Mynd/GettyImages

LeBron James náði tvöfaldri þrennu þriðja leikinn í röð þegar hann var með 34 stig, 13 stoðsendingar og 10 fráköst í 119-111 sigri Cleveland Cavaliers á Phoenix Suns í NBA-deildinni í nótt. Þetta var sjötta tap Phoenix í röð sem er lengsta taphrina liðsins í sex ár.

„Það líklega ómögulegt að ná þrennu að meðaltali í 82 leikjum en ef einhver getur það þá er það okkar maður," sagði Mike Brown, þjálfari Cleveland eftir leikinn.

„Ég ætla að vona að sem flestir séu að tala um hann í sambandi við mikilvægasta leikmann deildarinnar því hann á þau verðlaun skilið," bætti Brown við. Auk þrennunnar þá var James einnig með 3 stolna bolta og 3 varin skot.

„Þriðji sigurinn í röð, það er fréttin. Ég mun reyna að gera allt sem ég get þannig að mitt lið vinni körfuboltaleiki. Ef ég þarf að ná þrennu til þess þá er það bara hið besta mál," sagði James eftir leikinn.

James innsiglaði þrennuna með tíunda frákasti sínu í leiknum aðeins 2,8 sekúndum fyrir leikslok. Þetta var sjötta þrennan hans í vetur og sú 23. á ferlinum

Mo Williams var með 30 stig hjá Cleveland en hjá Phoenix var Matt Barnes með 21 stig og Steve Nash skoraði 20 stig. Shaquille O´Neal var með 12 stig og 6 villur á 26 mínútum auk þess sem liðið tapið með 14 stigum á meðan hann var inn á vellinum í leiknum.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×