Komið er í ljós að bandaríska hjólreiðagoðsögnin Lance Armstrong er með brákað viðbein eftir að hafa dottið í keppni á Spáni.
Hinn 37 ára gamli Bandaríkjamaður datt þegar hann átti aðeins 18 kílómetra eftir í mark í keppninni en hann er nú kominn til heimalandsins þar sem hann mun fara í aðgerð.
"Ég er mjög vonsvikinn yfir þessu," sagði Armstrong í samtali við fjölmiðla þegar hann yfirgaf sjúkrahúsið í Valladolid á Spáni.
Ekki er talið útilokað að Armstrong geti tekið þátt í Giro d´Italia hjólreiðunum sem hefjast þann 9. má þrátt fyrir meiðslin, en þau munu ekki aftra honum frá þátttöku í Frakklandshjólreiðunum sem hefjast ekki fyrr en í byrjun júlí í sumar.