Um helgina var gengið frá ráðningu Singer Capital Markets á 35 starfsmönnum frá verðbréfamiðlunni Teathers. Við þetta tvöfaldast mannafli Singer.
Teathers er í eigu Straums sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir. Ekki er ljóst hvað verður um hinn helming starfsmannanna eða reksturinn sem slíkan. Bann kauphallarinnar í London við verðbréfaviðskiptum Teathers er enn í gildi.
Singer, sem áður var í eigu Kaupþings, þykir fengur í starfsmönnunum frá Teathers. Þannig segir Tim Cockroft í tilkynningu um málið að nú hafi verðbréfamiðlunin mannskap á við hvaða annað félag á þeim vettvangi.
Síðastliðinn föstudag sagði Straumur upp 68 starfsmönnum sem störfuðu á skrifstofu Straums í London undir formerkjum Teathers.