Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, setti nýtt met í Meistaradeildinni í kvöld þegar hann kom Manchester United í sjötta sinn inn í undanúrslit Meistaradeildarinnar. Manchester United tryggði sér sætið með því að vinna Porto 1-0 í seinni leik liðanna í átta liða úrslitunum.
Fyrir þetta tímabil þá átti Ferguson metið ásamt Carlo Ancelotti sem hefur farið fimm sinnum með lið sín, Juventus og AC Milan, í undanúrslit Meistaradeildarinnar.
Manchester United komst fyrst í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið 1997 en United hefur tvisvar unnið Meistaradeildina undir hans stjórn, 1999 og 2008.
Arsène Wenger (Arsenal) og Guus Hiddink (Chelsea) voru báðir að fara með lið í þriðja sinn í undanúrslit Meistaradeildarinnar.
Þjálfarar með flest lið í undanúrslit Meistaradeildarinnar:
6 Sir Alex Ferguson -Man.United (1997, 1999, 2002, 2007, 2008, 2009)
5 Carlo Ancelotti - Juventus (1999), AC Milan (2003, 2005, 2006, 2007)
4 Louis van Gaal - Ajax (1995, 1996, 1997), FC Barcelona (2000)
4 Ottmar Hitzfeld - Dortmund (1997), Bayern (1999, 2000, 2001)
4 Marcello Lippi - Juventus (1996, 1997, 1998, 2003)
4 Vicente del Bosque - Real Madrid (2000, 2001, 2002, 2003)