Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur valið þrjá menn til þess að gegna forystuhlutverkum í bandaríska fjármálaráðuneytinu. Fjármálaráðherra hefur verið gagnrýndur nokkuð að undanförnu fyrir að vera ekki með fullmannað ráðuneyti.
En í dag bárust upplýsingar um að Obama myndi tilnefna þrjá varafjármálaráðherra. David Cohen mun hafa eftirlit með hryðjuverkum á sviði fjármála, Alan B Krueger mun starfa á sviði efnahagsmótunar og Kim Wallace mun starfa á lagaskrifstofu ráðuneytisins.
Allir eru þeir nú þegar í starfi ráðgjafa Timothys Geithners fjármálaráðherra, en öldungadeildin á eftir að samþykkja val þeirra í embætti aðstoðarfjármálaráðherra.
Geithner hefur verið gagnrýndur fyrir að taka sér of langan tíma í að manna ráðuneytið en hann hefur svarað því til að hann vilji vanda val á mönnum.
