Ný leiðarstjarna 31. mars 2009 06:00 Landsfundir Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um síðustu helgi skýrðu línur um margt. Ríkisfjármálapólitíkin er óskrifað blað í báðum flokkum. Báðir völdu nýja leiðtoga. Leiðir þeirra skildu hins vegar með afgerandi hætti í Evrópumálum. Kjölfestuleysi var hluti af vanda Samfylkingarinnar. Það hjálpar henni því að gera vinsælan aldursforseta Alþingis að formanni. Um leið er álitlegum ungum manni skipað á bekk varaformanns með góðri kosningu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að tapa trúnaði unga fólksins. Í því ljósi er rökrétt að kjósa ungan og efnilegan mann til forystu. Það opnar dyr tækifæra. Yfirgnæfandi stuðningur við áframhaldandi setu varaformannsins ítrekar svo vilja til að nálgast miðju stjórnmálanna. Samfylkingin endurtók fyrri afstöðu sína um evru sem gjaldmiðil og aðild að Evrópusambandinu. Það sama gerði flokkurinn fyrir kosningar 2007 án þess að gera að skilyrði fyrir stjórnarmyndun. Við stjórnarmyndun í byrjun þessa árs var Evrópustefnan heldur ekki þátttökuskilyrði. Það var aukheldur ekki gert á þessum landsfundi varðandi framhald núverandi samstarfs. Eftir að VG útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hafði Samfylkingin öll tök á að setja úrslitakosti um evru og Evrópusambandsaðild án þess að fórna ráðherrastólum. Í raun réttri felst því í niðurstöðu landsfundar Samfylkingarinnar að VG ráði framgangi málsins á næsta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði algjörlega aðild að Evrópusambandinu. Málamiðlunartillaga fráfarandi formanns var útvötnuð. Fari svo að ríkisstjórn taki málið upp á Alþingi leggur landsfundur Sjálfstæðisflokksins til að farin verði flókin tafaleið með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Að því leyti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins lokar ekki á aðild er framvinda málsins og frumkvæði lagt í hendur VG. Þannig hafa bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, með gagnstæðum formerkjum, gert Steingrím Sigfússon að leiðarstjörnu landsins í Evrópumálum og um leið um lausn peningastefnunnar. Hann hefur lýst trú sinni á að stjórnarflokkarnir nái saman þar um. Þeirri niðurstöðu á hins vegar að halda leyndri fram yfir kosningar. Upptaka evru og aðild að Evrópusambandinu leysir ekki sjálfkrafa þann djúpa efnahagsvanda sem þjóðin er komin í eins og forystumenn Samfylkingarinnar láta í veðri vaka. Aðildin og ný mynt eru hins vegar forsenda þess að íslenskt atvinnulíf fái samkeppnisfært rekstrarumhverfi og launafólk fái laun greidd í gjaldgengri mynt. Enginn stjórnmálaflokkur hefur sýnt fram á hvernig tryggja á samkeppnishæfni atvinnulífsins með óbreyttum gjaldmiðli. Án jafnrar samkeppnisstöðu er lítil von til þess að tugir þúsunda Íslendinga losni úr ánauð atvinnuleysisins á næstu árum. Síðustu daga hefur birst í auglýsingum ávarp fólks úr ólíkum stjórnmálaflokkum og starfsgreinum samfélagsins. Þar er lýst samstöðu um evru og aðild að Evrópusambandinu. Almenningur í landinu á nú eina von. Hún er sú að í kosningabaráttunni verði mynduð þjóðarhreyfing undir merkjum þessa ávarps til að knýja á um skjótan framgang málsins. Of mikið er í húfi að ásættanlegt sé að þjóðin gangi á slíkum örlagatímum til kosninga með það úrræðaleysi sem við blasir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Verstu kennarar í heimi Gígja Bjargardóttir Skoðun Hinir vondu fjármagnseigendur! Guðmundur Ragnarsson Skoðun Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Vertu réttu megin við línuna Benedikta Guðrún Svavarsdóttir Skoðun Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun Gaslýsum almenning Elínrós Erlingsdóttir Skoðun Er húsið tómt? Bjarni Benediktsson Skoðun Hægriflokkarnir boða ójöfnuð fyrir íslenska skóla Dagbjört Hákonardóttir Skoðun „Að ganga á bak orða sinna“ – Hvað þýðir það eiginlega? Ragnheiður Stephensen Skoðun Íslensku menntaverðlaunin – íslenskt skólastarf Jón Torfi Jónasson Skoðun
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um síðustu helgi skýrðu línur um margt. Ríkisfjármálapólitíkin er óskrifað blað í báðum flokkum. Báðir völdu nýja leiðtoga. Leiðir þeirra skildu hins vegar með afgerandi hætti í Evrópumálum. Kjölfestuleysi var hluti af vanda Samfylkingarinnar. Það hjálpar henni því að gera vinsælan aldursforseta Alþingis að formanni. Um leið er álitlegum ungum manni skipað á bekk varaformanns með góðri kosningu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að tapa trúnaði unga fólksins. Í því ljósi er rökrétt að kjósa ungan og efnilegan mann til forystu. Það opnar dyr tækifæra. Yfirgnæfandi stuðningur við áframhaldandi setu varaformannsins ítrekar svo vilja til að nálgast miðju stjórnmálanna. Samfylkingin endurtók fyrri afstöðu sína um evru sem gjaldmiðil og aðild að Evrópusambandinu. Það sama gerði flokkurinn fyrir kosningar 2007 án þess að gera að skilyrði fyrir stjórnarmyndun. Við stjórnarmyndun í byrjun þessa árs var Evrópustefnan heldur ekki þátttökuskilyrði. Það var aukheldur ekki gert á þessum landsfundi varðandi framhald núverandi samstarfs. Eftir að VG útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hafði Samfylkingin öll tök á að setja úrslitakosti um evru og Evrópusambandsaðild án þess að fórna ráðherrastólum. Í raun réttri felst því í niðurstöðu landsfundar Samfylkingarinnar að VG ráði framgangi málsins á næsta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði algjörlega aðild að Evrópusambandinu. Málamiðlunartillaga fráfarandi formanns var útvötnuð. Fari svo að ríkisstjórn taki málið upp á Alþingi leggur landsfundur Sjálfstæðisflokksins til að farin verði flókin tafaleið með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Að því leyti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins lokar ekki á aðild er framvinda málsins og frumkvæði lagt í hendur VG. Þannig hafa bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, með gagnstæðum formerkjum, gert Steingrím Sigfússon að leiðarstjörnu landsins í Evrópumálum og um leið um lausn peningastefnunnar. Hann hefur lýst trú sinni á að stjórnarflokkarnir nái saman þar um. Þeirri niðurstöðu á hins vegar að halda leyndri fram yfir kosningar. Upptaka evru og aðild að Evrópusambandinu leysir ekki sjálfkrafa þann djúpa efnahagsvanda sem þjóðin er komin í eins og forystumenn Samfylkingarinnar láta í veðri vaka. Aðildin og ný mynt eru hins vegar forsenda þess að íslenskt atvinnulíf fái samkeppnisfært rekstrarumhverfi og launafólk fái laun greidd í gjaldgengri mynt. Enginn stjórnmálaflokkur hefur sýnt fram á hvernig tryggja á samkeppnishæfni atvinnulífsins með óbreyttum gjaldmiðli. Án jafnrar samkeppnisstöðu er lítil von til þess að tugir þúsunda Íslendinga losni úr ánauð atvinnuleysisins á næstu árum. Síðustu daga hefur birst í auglýsingum ávarp fólks úr ólíkum stjórnmálaflokkum og starfsgreinum samfélagsins. Þar er lýst samstöðu um evru og aðild að Evrópusambandinu. Almenningur í landinu á nú eina von. Hún er sú að í kosningabaráttunni verði mynduð þjóðarhreyfing undir merkjum þessa ávarps til að knýja á um skjótan framgang málsins. Of mikið er í húfi að ásættanlegt sé að þjóðin gangi á slíkum örlagatímum til kosninga með það úrræðaleysi sem við blasir.
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun
Um hvað snýst yfirvofandi læknaverkfall - hvað ber eiginlega á milli samningsaðila? Theódór Skúli Sigurðsson Skoðun