Útherjinn Donte Stallworth hjá Cleveland Browns segist vera ónýtur maður eftir að hann varð manni að bana í bílslysi sem átti sér stað í Miami á dögunum.
Stallworth segir að hugsanir sínar og bænir séu hjá fjölskyldu Mario Reyes sem hann keyrði niður á Bentleyinum sínum. Reyes lést í slysinu.
Stallworth keyrði á Reyes nærri gangstétt en ekki liggur fyrir hvort Reyes var að fara löglega yfir götuna.
Leikmaðurinn getur ekki tjáð sig frekar um atvikið sem er í rannsókn hjá lögreglu en Stallworth segist aðstoða lögregluna á allan mögulegan hátt. Engin ákæra hefur verið gefin út á hendur leikmanninum.
Lögreglan í Miami hefur ekkert viljað tjá sig um málið.