Birgir Leifur Hafþórsson er á einu höggi undir pari eftir fyrstu tíu holurnar á öðrum keppnisdegi á Opna Andalúsíu-mótinu sem fer fram í Sevilla á Spáni. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni í golfi.
Sem stendur er hann í 8.-15. sæti á samtals fjórum höggum undir pari.
Birgir Leifur hefur verið öllu stöðugri í sínum leik í dag en í gær og var á pari á fyrri níu. Hann fékk þá sjö pör, einn fugl og einn skolla. Hann byrjaði á 10. holu í morgun.
Hann fékk svo fugl á 1. holu og er því á einu höggi undir pari eftir tíu holur í morgun.
Birgir Leifur fékk aðeins eitt par á fyrri níu holunum í gær og verður því athyglisvert að sjá hvernig honum gengur á sömu holunum í dag.