Viðskipti erlent

Moody´s: Bandaríkin halda lánshæfiseinkunn AAA

Matsfyrirtækið Moody´s segir í nýju áliti að Bandaríkin muni halda AAA lánshæfiseinkunn sinni en bætir við að sú einkunn kunni að vera í hættu ef bandarískum stjórnvöldum tekst ekki að draga úr opinberum skuldum sínum.

Töluverður taugatitringur hefur verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum undanfarnar vikur sökum þess að ýmsir sérfræðingar töldu að Bandaríkin myndu missa AAA einkunn sína, að því er segir í frétt á Reuters um málið.

„AAA einkunn Bandaríkjanna er örugg," segir Pierre Cailleteau forstjóri þeirrar matsdeildar Moody´s sem metur einkunnir ríkja á fundi um málið í Tókýó í dag en einkunnin er gefin með stöðugum horfum.

Fyrir utan miklar skuldir Bandaríkjanna segir í áliti Moody´s að tvennt annað gæti ógnað AAA einkunn landsins. Annarsvegar er þar um að ræða ef vaxtakjörin á lánum Bandaríkjanna muni versna að mun og hinsvegar ef dollarinn missi stöðu sína sem helsta gjaldeyrisforðamynt heimsins. Það síðarnefnda er þó talið mjög ósennilegt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×