Viðskipti erlent

Frystingu aflétt á eignum Kaupþings í Þýskalandi

Þýska fjármálaeftirlitið (BaFin) hefur aflétt frystingu á eignum Kaupþings í Þýskalandi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt er á heimasíðu BaFin. Þar segir að frystingin sé ekki lengur nauðsynleg.

Eins og fram kom í frétt hér fyrr í dag hefur skilanefnd Kaupþings sent frá sér tilkynningu um að greiðslur til eigenda Edge reikninga Kaupþings í Þýskalandi muni fá endurgreitt frá bankanum í næstunni. Þessa er einnig getið á heimasíðu BaFin þar sem segir að eigendur Edge reikninga muni geta tekið inneignir sínar út af þeim í þessari viku.

Í tilkynningu BaFin segir ennfremur að viðskiptaráðherra Íslands, Gylfi Magnússon, hafi sent eftirlitinu bréf þar sem segir að inneignir á nær 31.000 Edge reikningum falli undir íslenska löggjöf sem og þá sem gildir innan ESB.

Eins og fram hefur komið áttu þessir tæplega 31.000 einstaklingar samtals 308 milljónir evra á reikningum sínum. Eignir Kaupþings duga vel fyrir þessari upphæð og ekki króna fellur á ríkissjóð af þessum sökum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×