Körfubolti

Portland hefur í hótunum vegna Miles

NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Darius Miles hefur ekki gert neinar rósir í NBA deildinni síðustu ár vegna þrálátra meiðsla og vandræða utan vallar. Hann er þó umtalaðasti maðurinn í deildinni í dag.

Miles var samningsbundinn Portland Trailblazers þegar hann meiddist illa á hné og margir töldu að ferill hans væri á enda runninn.

Hann var látinn fara frá Portland vorið 2008 eftir að hafa ekki spilað leik með liðinu í tvö ár og gat Portland losnað undan háum launasamningi hans eftir að meiðsli hans voru metin þannig að þau hefðu í raun bundið enda á feril hans.

Þar með var sögunni ekki lokið því Miles náði að komast til sæmilegrar heilsu á ný og gerði stuttan samning við Boston í sumar með það fyrir augum að koma ferlinum af stað á ný.

Ekki voru forráðamenn Portland á eitt sáttir við það, því reglur segja til um að ef Miles spilar tíu leiki eða meira með liði í vetur, fara himinhá laun hans aftur að gilda gegn launaþakinu hjá Portland - alls 18 milljónir dollara fyrir þetta ár og næsta.

Það þýðir að Portland þarf að fara að borga lúxusskattinn svokallaða og myndu þessar 18 milljónir í bókum Portland setja félaginu stórt strik í reikninginn í leikmannamálum í nánustu framtíð.

Miles spilaði nokkra leiki með Boston á undirbúningstímabilinu og spilaði svo tvo leiki með Memphis fyrir skömmu þegar félagið fékk hann til reynslu á skammtímasamning.

Miles er þannig aðeins tveimur leikjum frá því að ryðjast aftur inn á launaskrá Portland á mjög svo óæskilegan hátt.

Forráðamenn Portland hafa brugðist við þessu og hafa nú ritað hinum 29 félögunum í deildinni bréf og hóta málshöfðun ef einhver af keppinautum liðsins reynir að semja við Miles gagngert til þess að láta hann koma við sögu í tveimur leikjum og skemma þá fyrir Portland.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×