Tiger Woods segist ekki geta ímyndað sér það tilfinningalega álag sem Phil Mickelson verður undir á opna bandaríska mótinu næstu daga.
Mickelson mætti síðar en aðrir kylfingar á Bethpage-völlinn þar sem hann vildi eyða afmælisdegi sínum með konu sinni sem var nýlega greind með brjóstakrabbamein.
„Ég get ekki ímyndað mér hvernig er að taka á þeim vandamálum sem hann þarf að glíma við á hverjum degi. Ég tek hattinn ofan fyrir því hvernig hann hefur höndlað aðstæður því það er ekki auðvelt," sagði Tiger en Woods-hjónin hafa oft eytt tíma með Mickelson-hjónunum.
„Við höfum spilað tvímenning í golfi sem og tennis. Það voru frábærir tímar. Ég og allir aðrir óska Amy Mickelson góðs bata og vonandi sjáum við hana aftur sem fyrst," bætti Tiger við.