Hinir ókosnu 3. nóvember 2009 06:00 Margt bendir til að áhugaverðir tímar í sögu lýðræðis á Íslandi fari nú í hönd. Ríkisstjórn Íslands sem starfar í umboði meirihluta þjóðarinnar sætir núna hótunum af hálfu stjórnenda Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem þjóðin hefur ekki kosið til neins. Svo langt gengur rimman að þessir aðilar sem ekki tala í nafni þjóðarinnar vilja ráða skattamálum á Íslandi en hóta annars skærum á vinnumarkaði; uppsögn hins svo kallaða „stöðugleikasáttmála". Nokkur misskilningur virðist vera ríkjandi meðal þeirra sem gerðu þennan stöðugleikasáttmála. Hann er ekki gjöf þeirra til okkar hinna, afgangsins af þjóðinni. Þvert á móti er stöðugleiki á vinnumarkaði hagsmunamál bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. Hitt er svo verra mál að kröfur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands bera þess merki að þessum stofnunum er ekki stjórnað í samræmi við hagsmuni þeirra sem þær kenna sig við og greiða til þeirra félagsgjöld. Þannig vill stjórn Samtaka atvinnulífsins auka álögur á alla atvinnurekendur með hækkun tryggingargjalds til þess að knýja fram lægri álögur fyrir fámennan hóp. Barátta Samtaka atvinnulífsins gegn orkusköttum er skólabókardæmi um það hvernig sérhagsmunir geta orðið allsráðandi í stéttabaráttu. Sannleikurinn er sá að innlendur virðisauki af starfsemi stóriðjuvera á Ísland er sáralítill eða u.þ.b. 1,8% af vergri þjóðarframleiðslu. Eins og Indriði H. Þorláksson og fleiri hafa bent á rennur þessi virðisauki að tveimur þriðju hlutum til erlendra eigenda álveranna. Virðisauki vegna sölu á aðföngum er varla mikill umfram vaxtagreiðslur orkuveranna sem renna úr landi og viðunandi ávöxtun eiginfjár. Líklega rennur arður af orkulindinni, auðlindarentan, nær óskiptur til stóriðjuveranna sem kaupa orkuna. Mestur hluti af virðisauka stóriðju og stórvirkjana fer því úr landi í formi vaxta. Enn þá skringilegra er að sjá forystumenn Alþýðusambands Íslands gefa í skyn með sinni forgangsröðun að stóriðja sé númer eitt, tvö og þrjú fyrir atvinnusköpun á Íslandi. Þeim misskilningi er raunar oft haldið á lofti að mikilvægi stóriðju fyrir atvinnusköpun hafi aukist vegna bágs atvinnuástands. En aukið atvinnuleysi á Íslandi veldur því þvert á móti að við þurfum að verja hverri krónu skynsamlega til að tryggja að erlend fjárfesting og nýting auðlinda skapi sem flest störf. Og þar fær stóriðjan ekki háa einkunn. Starfsmenn við álverin þrjú sem starfandi eru að viðbættum afleiddum störfum eru um 1,7% af vinnuafli í landinu. Störfin sem verða til í álverum eru hins vegar mjög dýr störf. Í álframleiðslu eru launin aðeins um 10% kostnaðar en 45% í sjávarútvegi, ef við tökum laun sjómanna, laun fiskverkafólks og allra þeirra með sem koma að verðmætasköpun í sjávarútveginum. Í ferðaþjónustu eru launin um 50% kostnaðar. Þetta merkir að stofnkostnaður við hvert starf í stóriðju er einhver sá mesti sem þekkist, mældur í hundruðum milljóna króna. Því er aftur öfugt farið í ferðaþjónustu og öðrum mannaflsfrekari greinum. Ef ætlunin er að standa að öflugri atvinnusköpun mun hver króna sem varið er af opinberu fé skila mun meiru ef henni er varið til útgerðar eða ferðaþjónustu heldur en fjárfestingar í stóriðju. Og það er þrátt fyrir það að fórnarkostnaðurinn, þau umhverfisspjöll sem verða vegna framkvæmdanna, sé ekki metinn til fjár að neinu marki. Helsti efnahagslegi ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Núna eru heildargreiðslur álvera á Íslandi til ríkisins tæpir tveir milljarðar, en afsláttur álveranna vegna afskrifta veldur því að þau greiða einungis lítinn hluta hagnaðar síns í skatt. Þessar afskriftareglur valda því að ávinningur hins opinbera af nýrri stóriðjuframkvæmd er jafnan sáralítill til skamms tíma. En jafnvel þótt álverin nytu ekki slíkra afskriftakjara yrði framlag þeirra til ríkissjóðs innan við sex milljarða á núvirði og orkuskattar myndu auka þann kostnað um rúmlega þrjá milljarða alls. Eftir stæði hagnaður eigenda upp á 25-30 milljarða. Er hægt að halda því fram að stóriðja á Íslandi þoli ekki slíkt gjald á meðan smáfyrirtæki geti tekið á sig umtalsverða hækkun tryggingagjalds? Núna eru margir atvinnulausir á Íslandi og smærri fyrirtæki berjast í bökkum. Tillögur hinna sjálfskipuðu talsmanna atvinnulífsins miða að því að auka vanda þess hóps svo að stóriðjan fái áfram orkulindir Íslands á afsláttarkjörum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sverrir Jakobsson Mest lesið Þarf ég að flytja úr landi? Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir Skoðun Bannað að lækna sykursýki II Lukka Pálsdóttir Skoðun Hvað viltu að bíði þín heima? Þórdís Dröfn Skoðun Jæja, ræðum þá þetta dásamlega Evrópusamband Haraldur Ólafsson Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Borgið lausnargjaldið Ólafur Hauksson Skoðun Barnaskapur Bjarna Ben; Fjölmargar þjóðir með meiri kaupmátt en við! Ole Anton Bieltvedt Skoðun Misskilin mannúð í hælisleitendamálum Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir Skoðun 11 ástæður fyrir því að kjósa Pírata Baldur Karl Magnússon Skoðun Ætla Íslendingar að standa vörð um orkuauðlindir sínar? Ágústa Ágústsdóttir Skoðun
Margt bendir til að áhugaverðir tímar í sögu lýðræðis á Íslandi fari nú í hönd. Ríkisstjórn Íslands sem starfar í umboði meirihluta þjóðarinnar sætir núna hótunum af hálfu stjórnenda Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem þjóðin hefur ekki kosið til neins. Svo langt gengur rimman að þessir aðilar sem ekki tala í nafni þjóðarinnar vilja ráða skattamálum á Íslandi en hóta annars skærum á vinnumarkaði; uppsögn hins svo kallaða „stöðugleikasáttmála". Nokkur misskilningur virðist vera ríkjandi meðal þeirra sem gerðu þennan stöðugleikasáttmála. Hann er ekki gjöf þeirra til okkar hinna, afgangsins af þjóðinni. Þvert á móti er stöðugleiki á vinnumarkaði hagsmunamál bæði atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar. Hitt er svo verra mál að kröfur Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands bera þess merki að þessum stofnunum er ekki stjórnað í samræmi við hagsmuni þeirra sem þær kenna sig við og greiða til þeirra félagsgjöld. Þannig vill stjórn Samtaka atvinnulífsins auka álögur á alla atvinnurekendur með hækkun tryggingargjalds til þess að knýja fram lægri álögur fyrir fámennan hóp. Barátta Samtaka atvinnulífsins gegn orkusköttum er skólabókardæmi um það hvernig sérhagsmunir geta orðið allsráðandi í stéttabaráttu. Sannleikurinn er sá að innlendur virðisauki af starfsemi stóriðjuvera á Ísland er sáralítill eða u.þ.b. 1,8% af vergri þjóðarframleiðslu. Eins og Indriði H. Þorláksson og fleiri hafa bent á rennur þessi virðisauki að tveimur þriðju hlutum til erlendra eigenda álveranna. Virðisauki vegna sölu á aðföngum er varla mikill umfram vaxtagreiðslur orkuveranna sem renna úr landi og viðunandi ávöxtun eiginfjár. Líklega rennur arður af orkulindinni, auðlindarentan, nær óskiptur til stóriðjuveranna sem kaupa orkuna. Mestur hluti af virðisauka stóriðju og stórvirkjana fer því úr landi í formi vaxta. Enn þá skringilegra er að sjá forystumenn Alþýðusambands Íslands gefa í skyn með sinni forgangsröðun að stóriðja sé númer eitt, tvö og þrjú fyrir atvinnusköpun á Íslandi. Þeim misskilningi er raunar oft haldið á lofti að mikilvægi stóriðju fyrir atvinnusköpun hafi aukist vegna bágs atvinnuástands. En aukið atvinnuleysi á Íslandi veldur því þvert á móti að við þurfum að verja hverri krónu skynsamlega til að tryggja að erlend fjárfesting og nýting auðlinda skapi sem flest störf. Og þar fær stóriðjan ekki háa einkunn. Starfsmenn við álverin þrjú sem starfandi eru að viðbættum afleiddum störfum eru um 1,7% af vinnuafli í landinu. Störfin sem verða til í álverum eru hins vegar mjög dýr störf. Í álframleiðslu eru launin aðeins um 10% kostnaðar en 45% í sjávarútvegi, ef við tökum laun sjómanna, laun fiskverkafólks og allra þeirra með sem koma að verðmætasköpun í sjávarútveginum. Í ferðaþjónustu eru launin um 50% kostnaðar. Þetta merkir að stofnkostnaður við hvert starf í stóriðju er einhver sá mesti sem þekkist, mældur í hundruðum milljóna króna. Því er aftur öfugt farið í ferðaþjónustu og öðrum mannaflsfrekari greinum. Ef ætlunin er að standa að öflugri atvinnusköpun mun hver króna sem varið er af opinberu fé skila mun meiru ef henni er varið til útgerðar eða ferðaþjónustu heldur en fjárfestingar í stóriðju. Og það er þrátt fyrir það að fórnarkostnaðurinn, þau umhverfisspjöll sem verða vegna framkvæmdanna, sé ekki metinn til fjár að neinu marki. Helsti efnahagslegi ávinningur Íslands af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Núna eru heildargreiðslur álvera á Íslandi til ríkisins tæpir tveir milljarðar, en afsláttur álveranna vegna afskrifta veldur því að þau greiða einungis lítinn hluta hagnaðar síns í skatt. Þessar afskriftareglur valda því að ávinningur hins opinbera af nýrri stóriðjuframkvæmd er jafnan sáralítill til skamms tíma. En jafnvel þótt álverin nytu ekki slíkra afskriftakjara yrði framlag þeirra til ríkissjóðs innan við sex milljarða á núvirði og orkuskattar myndu auka þann kostnað um rúmlega þrjá milljarða alls. Eftir stæði hagnaður eigenda upp á 25-30 milljarða. Er hægt að halda því fram að stóriðja á Íslandi þoli ekki slíkt gjald á meðan smáfyrirtæki geti tekið á sig umtalsverða hækkun tryggingagjalds? Núna eru margir atvinnulausir á Íslandi og smærri fyrirtæki berjast í bökkum. Tillögur hinna sjálfskipuðu talsmanna atvinnulífsins miða að því að auka vanda þess hóps svo að stóriðjan fái áfram orkulindir Íslands á afsláttarkjörum.