Jose Mourinho, þjálfari ítalska liðsins Internazionale, var gestur hjá þeim Gianluca Vialli og Paolo Rossi í ítalska fótboltaþættinum „Attenti a que due" á ítölsku Sky sjónvarpsstöðinni í gær og þar var hann beðinn að spá hvernig úrslitaleikur Meistaradeildarinnar færi.
„Þetta endar í vítakeppni," sagði Mourinho án þess að hika og hann var ekki tilbúinn að gefa hreint svar yfir hvort Barcelona eða Manchester United myndi vinna leikinn.
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar myndi þá enda í vítakeppni annað árið í röð og í fimmta skiptið frá og með árinu 2001. Manchester United vann Chelsea í vítakeppni í leiknum í fyrra.
Jose Mourinho vann Meistaradeildina í eina skiptið með Porto árið 2004 en þá vann liðið 3-0 sigur á franska liðinu Mónakó í úrslitaleiknum.