Erum við öll sek? Þorvaldur Gylfason skrifar 20. ágúst 2009 06:15 Þjóðir þurfa stundum í kjölfar mikilla atburða að horfast í augu við sjálfar sig. Þjóðverjar stóðu frammi fyrir slíkri áskorun að lokinni heimsstyrjöldinni 1945. Uppgjör þýzku þjóðarinnar þurfti að vera tvíþætt. Annars vegar þurfti að rétta yfir stríðsglæpamönnum. Bandamenn sáu um réttarhöldin í Nürnberg, þar sem fjöldi Þjóðverja fékk þunga dóma. Hins vegar þurfti þýzka þjóðin að gera upp hug sinn og sakir við sjálfa sig. Báru allir Þjóðverjar ábyrgð á Adolf Hitler og grimmdarverkum nasista? Voru Þjóðverjar allir samsekir? Athuganir eftir stríð bentu til, að aðeins um fjórðungur til þriðjungur Þjóðverja var á bandi Hitlers og nasista, og voru þær niðurstöður í samræmi við raunverulegt kjörfylgi nasista 1933. Mikill hluti þýzku þjóðarinnar var andvígur nasistum. Minni hlutinn sá sér hag í að halda því fram, að allir Þjóðverjar bæru ábyrgð, svo að enginn bæri ábyrgð. Ríkisstjórn Þýzkalands eftir stríð axlaði skyldur gagnvart öðrum þjóðum með því að afvopnast, deila fullveldi landsins með Frökkum og öðrum þjóðum á vettvangi ESB, uppræta ítök nasista og setja sannleikann um stjórnartíð þeirra í lögboðnar kennslubækur handa börnum og unglingum. Bandamenn hjálpuðu einnig til við þennan hluta uppgjörsins. Með hjálp þeirra tókst Þjóðverjum að endurheimta traust nágranna sinna og treysta samheldni þjóðarinnar innbyrðis. Þessi upprifjun kallast á við andrúmsloftið á Íslandi nú. Stjórnmálamenn, bankamenn og aðrir vara við nornaveiðum; það er orðið, sem þeir nota. Það má ekki persónugera hrunið, segja þeir. Þjóðin kaus ríkisstjórnina, sem setti bankana í hendur manna, sem keyrðu þá í kaf, svo að þjóðin er samsek, segja þeir. Þeir hafa augljósan hag af að skella eigin skuld á aðra. Vitaskuld var helför nasista gegn gyðingum miklu alvarlegri glæpur en hrunið. Nasistar náðu að vísu völdum með lýðræðislegum hætti 30. janúar 1933, en það var bara byrjunin. Flokkur þeirra varð stærsti þingflokkurinn eftir haustkosningarnar 1932 með þriðjungsfylgi. Strax í marz 1933 voru haldnar hlutdrægar kosningar, sem færðu nasistum þó ekki nema tæpan helming kjörfylgisins. Haustið 1933 voru enn haldnar kosningar, og þá var aðeins einn flokkur í framboði, flokkur nasista. Glæpir nasista voru því klárlega framdir í skjóli einræðis og ofbeldis. Hugmyndin um samsekt allra Þjóðverja og samábyrgð þeirra á glæpum nasista átti því frá öndverðu við veik rök að styðjast. Öðru máli gegnir um Ísland. Haustið 2008, þegar bankarnir hrundu, var við völd á Íslandi eins og endranær ríkisstjórn studd lýðræðislega kjörnum meiri hluta á Alþingi, sem þjóðin ber ábyrgð á. Ábyrgð þjóðar á rétt kjörnum stjórnvöldum í lýðræðisríki er skýr og einföld, og gildir þá einu, hversu illa ríkisstjórnin hefur farið að ráði sínu. Borgurum samfélagsins ber að greiða skatta og skyldur að lögum hvort sem þeir styðja ríkisstjórnina eða ekki. Andúð á stjórnvöldum leysir menn ekki undan skyldunni til að greiða skatta og virða lög. En ábyrgð þjóðar á ríkisstjórn í lýðræðisríki felur ekki í sér sekt þjóðarinnar. Við berum öll ábyrgð á bankahruninu og afleiðingum þess, hvort sem okkur líkar það vel eða illa, og það er hörmulegt, en við erum ekki öll sek, því fer víðs fjarri. Erlendir lánardrottnar sjá fram á að tapa allt að fjórfaldri eða fimmfaldri landsframleiðslu Íslands á viðskiptum sínum við landið. Engin hátekjuþjóð hefur áður bakað erlendum lánardrottnum svo mikið tjón miðað við landsframleiðslu, og munu Íslendingar þó standa eftir skuldum vafðir. Persónulegt gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar, aðaleiganda Landsbankans, 750 milljónir Bandaríkjadala, jaðrar við heimsmet. Þá eru ótaldar þungar búsifjar, sem bankahrunið hefur lagt á innlend heimili og fyrirtæki, og skuldir ríkisins. Þetta gerðist fyrir vanrækslu, sem varla er hægt að kalla annað en glæpsamlega, enda hefur frá byrjun leikið sterkur grunur á, að lög hafi verið brotin í stórum stíl fyrir hrun. Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu staðfest þennan grun fyrir sitt leyti með því að vísa fjölmörgum málum til sérstaks saksóknara. Samt hafa stjórnvöld að ýmsu öðru leyti slegið slöku við rannsókn hrunsins. Þau hafa ekki að fyrra bragði sótzt eftir erlendri aðstoð við rannsóknina, heldur hafa þau beinlínis streitzt gegn slíkri hjálp. Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, heldur áfram að reka sig á veggi. Hún ætti ef til vill að athuga, hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem leiddu hrunið yfir landið í eiginhagsmunaskyni, eða menn á þeirra vegum, hafi gerzt sekir um refsiverða háttsemi. Fordæmi er til. Saksóknari rússneska ríkisins lýsti Kommúnistaflokki Rússlands sem glæpasamtökum fyrir rétti 1992. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hver er munurinn á því að neyta fíkniefna í jakkafötum eða í neyðarskýli? Bryndís Rós Morrison,Björk Davíðsdóttir Skoðun Stúlkur eiga undir högg að sækja í nauðgunarmálum Jörgen Ingimar Hansson Skoðun Börnin okkar Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson Skoðun Það besta sem þú gerir fyrir loftslagið Halldór Björnsson Skoðun Allt að helmingslíkur á eyðingu byggðar á Íslandi Sigurður Loftur Thorlacius Skoðun Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun Ný Ölfusárbrú – af hverju svona brú? Guðmundur Valur Guðmundsson Skoðun Þú mátt vera afi (og ég má vera amma) Heiða Ingimarsdóttir Skoðun Verstu kennarar í heimi Gígja Bjargardóttir Skoðun Dæmisaga úr raunveruleikanum Sigurður F. Sigurðarson Skoðun
Þjóðir þurfa stundum í kjölfar mikilla atburða að horfast í augu við sjálfar sig. Þjóðverjar stóðu frammi fyrir slíkri áskorun að lokinni heimsstyrjöldinni 1945. Uppgjör þýzku þjóðarinnar þurfti að vera tvíþætt. Annars vegar þurfti að rétta yfir stríðsglæpamönnum. Bandamenn sáu um réttarhöldin í Nürnberg, þar sem fjöldi Þjóðverja fékk þunga dóma. Hins vegar þurfti þýzka þjóðin að gera upp hug sinn og sakir við sjálfa sig. Báru allir Þjóðverjar ábyrgð á Adolf Hitler og grimmdarverkum nasista? Voru Þjóðverjar allir samsekir? Athuganir eftir stríð bentu til, að aðeins um fjórðungur til þriðjungur Þjóðverja var á bandi Hitlers og nasista, og voru þær niðurstöður í samræmi við raunverulegt kjörfylgi nasista 1933. Mikill hluti þýzku þjóðarinnar var andvígur nasistum. Minni hlutinn sá sér hag í að halda því fram, að allir Þjóðverjar bæru ábyrgð, svo að enginn bæri ábyrgð. Ríkisstjórn Þýzkalands eftir stríð axlaði skyldur gagnvart öðrum þjóðum með því að afvopnast, deila fullveldi landsins með Frökkum og öðrum þjóðum á vettvangi ESB, uppræta ítök nasista og setja sannleikann um stjórnartíð þeirra í lögboðnar kennslubækur handa börnum og unglingum. Bandamenn hjálpuðu einnig til við þennan hluta uppgjörsins. Með hjálp þeirra tókst Þjóðverjum að endurheimta traust nágranna sinna og treysta samheldni þjóðarinnar innbyrðis. Þessi upprifjun kallast á við andrúmsloftið á Íslandi nú. Stjórnmálamenn, bankamenn og aðrir vara við nornaveiðum; það er orðið, sem þeir nota. Það má ekki persónugera hrunið, segja þeir. Þjóðin kaus ríkisstjórnina, sem setti bankana í hendur manna, sem keyrðu þá í kaf, svo að þjóðin er samsek, segja þeir. Þeir hafa augljósan hag af að skella eigin skuld á aðra. Vitaskuld var helför nasista gegn gyðingum miklu alvarlegri glæpur en hrunið. Nasistar náðu að vísu völdum með lýðræðislegum hætti 30. janúar 1933, en það var bara byrjunin. Flokkur þeirra varð stærsti þingflokkurinn eftir haustkosningarnar 1932 með þriðjungsfylgi. Strax í marz 1933 voru haldnar hlutdrægar kosningar, sem færðu nasistum þó ekki nema tæpan helming kjörfylgisins. Haustið 1933 voru enn haldnar kosningar, og þá var aðeins einn flokkur í framboði, flokkur nasista. Glæpir nasista voru því klárlega framdir í skjóli einræðis og ofbeldis. Hugmyndin um samsekt allra Þjóðverja og samábyrgð þeirra á glæpum nasista átti því frá öndverðu við veik rök að styðjast. Öðru máli gegnir um Ísland. Haustið 2008, þegar bankarnir hrundu, var við völd á Íslandi eins og endranær ríkisstjórn studd lýðræðislega kjörnum meiri hluta á Alþingi, sem þjóðin ber ábyrgð á. Ábyrgð þjóðar á rétt kjörnum stjórnvöldum í lýðræðisríki er skýr og einföld, og gildir þá einu, hversu illa ríkisstjórnin hefur farið að ráði sínu. Borgurum samfélagsins ber að greiða skatta og skyldur að lögum hvort sem þeir styðja ríkisstjórnina eða ekki. Andúð á stjórnvöldum leysir menn ekki undan skyldunni til að greiða skatta og virða lög. En ábyrgð þjóðar á ríkisstjórn í lýðræðisríki felur ekki í sér sekt þjóðarinnar. Við berum öll ábyrgð á bankahruninu og afleiðingum þess, hvort sem okkur líkar það vel eða illa, og það er hörmulegt, en við erum ekki öll sek, því fer víðs fjarri. Erlendir lánardrottnar sjá fram á að tapa allt að fjórfaldri eða fimmfaldri landsframleiðslu Íslands á viðskiptum sínum við landið. Engin hátekjuþjóð hefur áður bakað erlendum lánardrottnum svo mikið tjón miðað við landsframleiðslu, og munu Íslendingar þó standa eftir skuldum vafðir. Persónulegt gjaldþrot Björgólfs Guðmundssonar, aðaleiganda Landsbankans, 750 milljónir Bandaríkjadala, jaðrar við heimsmet. Þá eru ótaldar þungar búsifjar, sem bankahrunið hefur lagt á innlend heimili og fyrirtæki, og skuldir ríkisins. Þetta gerðist fyrir vanrækslu, sem varla er hægt að kalla annað en glæpsamlega, enda hefur frá byrjun leikið sterkur grunur á, að lög hafi verið brotin í stórum stíl fyrir hrun. Fjármálaeftirlitið hefur að undanförnu staðfest þennan grun fyrir sitt leyti með því að vísa fjölmörgum málum til sérstaks saksóknara. Samt hafa stjórnvöld að ýmsu öðru leyti slegið slöku við rannsókn hrunsins. Þau hafa ekki að fyrra bragði sótzt eftir erlendri aðstoð við rannsóknina, heldur hafa þau beinlínis streitzt gegn slíkri hjálp. Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, heldur áfram að reka sig á veggi. Hún ætti ef til vill að athuga, hvort þeir stjórnmálaflokkar, sem leiddu hrunið yfir landið í eiginhagsmunaskyni, eða menn á þeirra vegum, hafi gerzt sekir um refsiverða háttsemi. Fordæmi er til. Saksóknari rússneska ríkisins lýsti Kommúnistaflokki Rússlands sem glæpasamtökum fyrir rétti 1992.
Hver er munurinn á því að neyta fíkniefna í jakkafötum eða í neyðarskýli? Bryndís Rós Morrison,Björk Davíðsdóttir Skoðun
Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun
Hver er munurinn á því að neyta fíkniefna í jakkafötum eða í neyðarskýli? Bryndís Rós Morrison,Björk Davíðsdóttir Skoðun
Varð að segja af sér ráðherradómi vegna vanhæfi – Er nú þrefaldur ráðherra, líka forsætisráðherra Ole Anton Bieltvedt Skoðun