JPMorgan Cazenove Ltd. hefur sett 22% hlut Kaupþings í verslunarkeðjunni Booker til sölu. Alls er um rúmlega 327 milljónir hluta að ræða og er söluverðið 28 til 30 pens á hlut. Verðmætið er þar með um 20 milljarðar kr.
Fjallað er um málið bæði á Reuters og Bloomberg-fréttaveitunni. Þar segir að hlutirnir sem voru áður í eigu Singer & Friedlander bankans séu settir til sölu af hálfu PricewatwerhouseCoopers sem nú fer með stjórnina á þrotabúi bankans á eyjunni Mön.
Reuters segist hafa heimildir fyrir því að kaupendur á hlutnum séu að mestu langtímafjárfestar sem eigi fyrir hluti í Booker.
Bloomberg segir að Kaupþing hafi eignast fyrrgreindan hlut þegar Baugur seldi rúmlega 31% hlut sinn í Booker á síðasta ári.
Verð á hlutum í Booker var óbreytt á markaðinum í London í morgun og stóð í rúmlega 30 pensum. Það hefur hækkað um 37% á undanförnum mánuðum.
Við greindum frá því í gær að samkvæmt Reuters væri markaðsvirði Booker 507 milljónir punda. En samkvæmt verðinu á hlut í morgun er það um 460 milljónir punda eða um 92 milljarðar kr.