Viðskipti erlent

Dollaramilljónamæringum fækkar um 15% í heiminum

Einstaklingum sem eiga meir en eina milljón dollara í persónulegum auðæfum fækkar um tæp 15% í ár miðað við árið í fyrra. Þeir eru nú 8,6 milljónir talsins. Þetta eru niðurstöður árlegrar úttektar á vegum Capgemini/Merrill Lynch sem birt er í dag.

Fram kemur að þetta sé minnsti fjöldi dollaramilljónamæringa í heiminum síðan árið 2005. Þessi fækkun á milljónamæringunum er bein afleiðing af fjármálakreppunni.

Hvað næstu nágranna Íslands varðar hefur dollaramilljónamæringum fækkað mest í Svíþjóð eða um tæp 22% og eru þeir nú 39.000 talsins. Best hafa Norðmenn komist hjá því að tapa dollaramilljónamæringum en þeim fækkaði úr 62.000 manns í fyrra og niður í 58.000 í ár eða um 7,7%.

Hvað Dani varðar er fækkunin í takt við heiminn en þeim fækkaði um 14,5% og eru rúmlega 31.000 Danir nú dollaramilljónamæringar, að því er segir í umfjöllun á vefsíðunni e24.no um málið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×