Belgíska liðið Standard Liege sló í dag Everton úr leik í UEFA-bikarkeppninni með því að vinna síðari leik liðanna, 2-1, á heimavelli.
Everton er einnig úr leik í enska deildarbikarnum og er í fjórtánda sæti í deildinni eftir að liðið tapaði fyrir grönnum sínum í Liverpool um helgina.
Everton byrjaði þó ágætlega í leiknum í dag en það var Axel Witsel sem kom heimamönnum yfir í fyrri hálfleik.
Phil Jagielka náði svo að jafna metin með nokkuð skrautlegu marki eftir hornspyrnu Mikel Arteta en Milan Jovanovic tryggði þeim belgísku sigur með marki úr vítaspyrnu í síðari hálfleik.
Everton mætir næst Newcastle í deildinni og verður að stóla á sigur í þeim leik ætli liðið sér að jafna sig á úrslitum kvöldsins.