Erlent

Flott afmæli í Swazilandi

Óli Tynes skrifar
Mswati mætti í splunkunýjum BMW í afmæli sitt.
Mswati mætti í splunkunýjum BMW í afmæli sitt.

Það var ekkert til sparað þegar Mswati konungur Swazilands varð fertugur á laugardaginn. Ríki hans fagnaði fertugsafmæli þennan sama dag.

Ekki var að sjá að það varpaði skugga á hátíðahöldin í þessu bláfátæka ríki að fæstir þegnar þess ná að verða fertugir. Meðalævi í Swazilandi er 33,2 ár.

Mswati kóngur er einvaldur í landinu, þar eru ekki leyfðir neinir stjórnmálaflokkar. Þó hefur borið á gagnrýnisröddum vegna þessara hátíðahalda sem opinberlega eru sögð hafa kostað um 200 milljónir króna.

Líklegri tala er sögð vera um milljarður króna. Þá er væntanlega talinn með innkaupatúrinn sem kóngur fór í til Dubai ásamt átta af tólf eiginkonum sínum.

Þar keyptu þau bíla og fín föt fyrir afmælið og Mswati mætti í opnum BMW í afmæli sitt. Eyðnismitaður almúginn klappaði kóngi sínum lof í lófa, en eyðni er útbreiddari í Swazilandi en nokkursstaðar annarsstaðar í heiminum.

Mörgum afrískum þjóðhöfðingjum var boðið í afmælið og þeir mættu vel. Meðal þeirra var Róbert Mugabe forseti Zimbabwe sem var sérstaklega hylltur.

Mugabe nýtur vinsælda víða í Afríku þar sem hann er talinn standa uppi í hárinu á Vesturlöndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×