ÍR-ingar hafa komið sér þægilega fyrir í bílstjórasætinu í rimmunni við Keflavík. Breiðhyltingar unnu 94-77 í Seljaskóla í kvöld og eru komnir í 2-0 forystu í þessu einvígi.
Það lið sem vinnur þrjá leiki kemst í úrslit Íslandsmótsins og ÍR-ingar því komnir í ansi góða stöðu. Þeir voru mun betri í kvöld og náðu mest 23 stiga forystu.
Keflavík hafði yfir eftir fyrsta leikhluta en svo náðu ÍR-ingar völdunum og voru 51-37 yfir í hálfleik.
Sveinbjörn Claessen var stigahæstur ÍR-inga með 19 stig, Steinar Arason var með 15. Ómar Sævarsson var með 12 stig og 10 fráköst og Nate Brown 7 stig og 18 stoðsendingar.
Hjá Keflavík var BA Walker stigahæstur með 20 stig, Magnús Gunnarsson 17 og Tommy Johnson 14.