Foreldrar Madeleine McCann vinna nú að því að koma upp upplýsingasíma um Evrópu fyrir týnd börn eða börn sem hefur verið rænt. Kate og Gerry McCann eru nú í Brussel vegna herferðarinnar sem þau hafa lagt lið sitt. Símanúmerið verður það sama um alla Evrópu, 116 000.
Fyrir stuttu voru hjónin í Bandaríkjunum þar sem þau kynntu sér Amber viðvörunarkerfið. Það gerir lögreglu kleift að loka fyrir ljósvakabylgjur í mismunandi ríkjum ef hún telur að barni hafi verið rænt. Kerfið býður einnig upp á að fréttaskeyti birtist á skiltum á þjóðvegum, oft með upplýsingum um skráningarnúmer á bílum grunaðra.
Á morgun munu Kate og Gerry útskýra kerfið og kynna fyrir þingmönnum Evrópuþingsins í Brussel. Hjónin segja að slíkt kerfi gæti hafa skipt sköpum við að hjálpa til við að finna Madeleine á fyrstu klukkutímunum eftir að hún hvarf. Símaverkefnið hefur hlotið stuðning víða á Evrópuþinginu og er styrkt af fimm þingmönnum þess.
Clarence Mitchell talsmaður McCann hjónanna sagði að fyrir þau væri þetta mikilvægt tækifæri til að tryggja betri samvinnu í Evrópu þegar barn hverfi og tryggja að engin önnur fjölskylda þurfi að ganga í gegnum þá sálarangist sem þau hafa gengið í gegnum.
„Þau vonast til að fá stuðning meirihluta þingmanna og með honum muni Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tryggja að slíkt kerfi verði að veruleika.," sagði hann.
