Tveir leikir eru á dagskrá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla í körfubolta í dag. KR tekur á móti ÍR í DHL höllinni og í Njarðvík mæta heimamenn Snæfelli. Báðir leikir hefjast klukkan 16 og verður síðarnefndi leikurinn sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Þetta eru fyrstu leikir liðanna í fyrstu umferðinni og um að gera fyrir fólk að skella sér á völlinn, því Iceland Express verður með borgarskotið svokallaða í hálfleik beggja leikja.
Í Njarðvík gefst heppnum áhorfendum tækifæri á að reyna við borgarskot upp á ferð til Eindhoven í Hollandi, en í vesturbænum verður skotið upp á ferð til Lundúna.