Körfubolti

Oden æfði með Portland

NordcPhotos/GettyImages

Miðherjinn Greg Oden æfði með liði Portland í 45 mínútur í dag og var í nógu góðu formi til að troða boltanum nokkrum sinnum á æfingunni.

Oden var valinn fyrstur í nýliðavalinu í NBA síðasta sumar og voru gríðarlegar væntingar bundnar við hann á sínu fyrsta tímabili. Hann meiddist hinsvegar í sumar og þurfti í uppskurð á hné sem olli því að hann varð að sleppa öllu nýliðaárinu sínu.

Hann hefur verið í endurhæfingu í allan vetur og tók þátt í æfingu með liðinu í fyrsta skipti í dag eftir uppskurðinn.

"Þetta var gaman. Mér leið vel og ég fann ekkert til í hnénu," sagði Oden kátur í samtali við Oregonian, en að sögn blaðsins var hann í ágætu formi og tróð boltanum nokkrum sinnum.

Ekki voru gerðar miklar væntingar til Portland liðsins fyrir yfirstandandi leiktíð vegna meiðsla Oden, en liðið afsannaði allar hrakspár og hefur staðið sig betur en nokkur þorði að vona.

Það verður því áhugavert að sjá til lærisveina Nate McMillan á næstu leiktíð þegar menn gera sér vonir um að Oden verði kominn á fullt á ný.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×