Heimsmeistarinn Kimi Raikkönen segist hvergi nærri saddur og stefnir harður á að verja titil sinn á komandi tímabili í Formúlu 1 sem hefst í Ástralíu á sunnudaginn.
Nokkrir af ökumönnunum í Formúlu 1 hafa látið hafa eftir sér að þeir efist um að Raikkönen muni aka í mörg ár í viðbót, en Finninn lætur engan bilbug á sér finna.
"Mönnum skjátlast ef þeir halda að ég sé saddur og ánægður með einn titil. Ég hef aldrei haft gaman af því að keppa að fimmta eða sjötta sæti - ég er í þessu til að vinna," sagði Raikkönen, sem tryggði sér meistaratitilinn með frábærum endaspretti á síðasta keppnistímabili.