Bandaríkjamaðurinn Bart Bryant er með forystu á PODS-meistaramótinu í Flórída en fyrsta keppnisdegi lauk snemma í nótt vegna rigningar.
Ekki náðu allir kylfingar að ljúka keppni en Bryant slapp fyrir horn og fékk meira að segja tvo fugla á síðustu tveimur holunum. Alls lék hann á 65 höggum eða sex undir pari.
Fjórir kylfingar léku holurnar átján á fimm höggum undir pari en Lee Janzen lék fimmtán holur á fimm undir pari og á því ágætar líkur á því að jafna eða bæta árangur Bryant.
Einna best lék Nicholas Thompson í gær áður en hætta þurfti keppni en hann var á fjórum höggum undir pari eftir níu holur. Stuart Appleby var á fjórum undir eftir ellefu holur og John Senden á ellefu undir eftir fjórtán holur.
Ernie Els náði að klára ellefu holur og var á pari þegar keppni var hætt. Hann vann sitt fyrsta mót í 48 síðustu tilraunum sínum um síðustu helgi er hann vann Honda Classic-mótið.
Keppni hefst á nýjan leik í kvöld.