Þeir Vilhjálmur Halldórsson og Kristinn Björgúlfsson sneru í dag aftur heim í íslenska handboltann eftir dvöl erlendis.
Kristinn hefur verið á mála hjá gríska félaginu PAOK í haust en hætti hjá félaginu í vikunni. Þar áður lék hann með Runar í Noregi en hefur nú ákveðið að snúa aftur heim í sitt gamla félag - ÍR.
ÍR keppir í 1. deild karla og er í öðru sæti, einu stigi á eftir FH.
Þá ákvað Vilhjálmur Halldórsson að koma aftur heim til Íslands eftir dvöl í Danmörku þar sem hann lék með Skjern og Lemvig. Hann gengur einnig til liðs við sitt gamla félag - Stjörnuna.
Vilhjálmur lék síðast með Val hér á landi en þar áður með Stjörnunni.
Þá hefur Afturelding samið við þrjá erlenda leikmenn. Fyrr í vikunni gekk Serbinn Slobodan Neskov til liðs við Mosfellinga og í dag bættust Ungverjarnir Attila Valaczkai og Oliver Kiss í hópinn en þeir léku báðir með Pick Szeged síðast.