Jo-Wilfried Tsonga er nýjasta stjarnan í tennisheiminum eftir að hann lagði Rafael Nadal í undanúrslitum opna ástralska meistaramótsins í tennis í dag.
Tsonga fór ótrúlega létt með Nadal í dag og vann hann í þremur lotum, 6-2, 6-3 og 6-2.
Nadal er í öðru sæti á styrkleikalista Alþjóða tennissambandsins en Tsonga er í 38. sæti.
Þetta er aðeins í fimmta skiptið sem Tsonga keppir á stórmóti í tennis og í fyrsta skiptið sem hann kemst í undanúrslit.
Fyrir mótið hafði hann lengst komið í fjórðu umferð á Wimbledon-mótinu í fyrra.
Nadal virtist aldrei eiga möguleika í dag og Tsonga lék við hvern sinn fingur. Hann skoraði sautján sinnum beint úr uppgjöf í leiknum en Nadal aðeins tvívegis.
Hann mætir annað hvort Roger Federer eða Nakal Djokovic í úrslitunum en þeir mætast í síðari undanúrslitunum í fyrramálið.
Federer er í efsta sæti á styrkleikalistanum en Djokovic í því þriðja.