Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna segir að herforingjastjórnin í Búrma beri ábyrgð á dauða tugþúsunda þegna sinna með því að hafna alþjóðlegri aðstoð eftir fellibylinn Nargis.
Robert Gates sagði að Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir hafi margsinnis boðist til að senda björgunarsveitir á vettvang, en því hafi verið hafnar.
Bandarísk, bresk og frönsk herskip hafa nú legið marga daga undan ströndum Búrma, þar sem tjónið er mest.
Í skipunum eru bæði vistir, þyrlur og þrautþjálfaður mannskapur sem gæti unnið stórvirki ef honum yrði hleypt í land. En herforingjastjórnin heldur áfram að þverskallast.