Marcin Baszczynski, fyrirliði Wisla Krakow, segir pólska liðið staðráðið í að auka á ógæfu enska liðsins Tottenham með því að slá það út úr Evrópukeppni félagsliða í kvöld.
Tottenham vann heimaleikinn 2-1 fyrir hálfum mánuði en 1-0 tap í Póllandi í kvöld myndi þýða að enska liðið væri úr leik.
Tottenham er í neðsta sæti úrvalsdeildarinnar með aðeins tvö stig úr fyrstu sex leikjum sínum og margir vilja meina að það gæti kostað knattspyrnustjórann starfið ef Tottenham fellur úr keppni í kvöld.
"Við gerum okkur grein fyrir því að Tottenham er í vanda og pressan á liðinu er mikil. Andinn í okkar herbúðum er góður og við höfum trú á því að við getum klárað dæmið," sagði fyrirliði pólska liðsins.
"Tottenham er kannski talið sigurstranglegra og er með sterkari einstaklinga í sínum röðum, en liðsandi okkar er sterkari."
Wisla hefur unnið fimm af sjö deildarleikjum sínum í pólsku deildinni og er ríkjandi meistari í heimalandinu.
Búist er við að uppselt verði á Stadion Wisly í kvöld, en heimavöllur Wisla er þekkt ljónagryfja þar sem lið eins og Barcelona hafa mátt sætta sig við tap.