Körfubolti

Tapar Lakers fyrsta leiknum í nótt?

Kobe Bryant er í fantaformi í úrslitakeppninni
Kobe Bryant er í fantaformi í úrslitakeppninni NordcPhotos/GettyImages

Þriðji leikur Utah Jazz og LA Lakers í undanúrslitum Vesturdeildar NBA verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan eitt eftir miðnætti í nótt. Lakers-liðið hefur ekki tapað leik í úrslitakeppninni til þessa, en verkefnið í kvöld verður liðinu væntanlega erfitt.

Lakers sópaði Denver út 4-0 í fyrstu umferðinni og vann nokkuð sannfærandi sigra á liði Utah í heimaleikjunum sínum tveimur.

Varnarleikur Lakers-manna var mjög góður og upp úr því fékk liðið mikið af hraðaupphlaupum og auðveldum körfum. Flestir af lykilmönnum Lakers hafa verið að spila vel í einvíginu, ekki síst hinn ótrúlegi Kobe Bryant sem skorar yfir 34 stig að meðaltali í leik.

Utah var erfiðasta liðið heim að sækja í deildarkeppninni í vetur og huggar sig eflaust við að vera komið á heimavöllinn á ný í þessu einvígi.

Liðið tapaði aðeins fjórum heimaleikjum í allan vetur, en einn þessara tapleikja var reyndar gegn Lakers í mars.

Þar stöðvaði Lakers-liðið nítján leikja sigurgöngu Jazz á heimavelli og varnaði Utah-mönnum frá því að setja félagsmet.

Lið sem komast í stöðuna 2-0 í seríum í úrslitakeppni NBA fara með sigur af hólmi í um 93% tilvika og því er sagan sannarlega á bandi Lakers í þessu einvígi.

Tapi Utah á heimavelli sínum í kvöld, er liðið augljóslega komið í vond mál, því engu liði í sögu deildarinnar hefur tekist að koma til baka og vinna seríu eftir að hafa lent undir 3-0.

Þriðji leikur liðanna hefst sem fyrr segir klukkan eitt í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Áhugasamir geta tekið þátt í umræðum meðan á leik stendur á NBA Blogginu hér á Vísi.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×