Spænski kylfingurinn Seve Ballesteros hefur greinst með heilaæxli eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús í Madríd á mánudaginn.
Hann mun gangast undir vefjasýnistöku á þriðjudaginn og verður í framhaldinu ákveðið hvers konar meðferð henti honum best.
Ballesteros er einn þekktasti kylfingur síðari tíma en hann vann fimm stórmót í golfi, þar af opna breska meistaramótið þrívegis.
„Á mínum golfferli hef ég verið þekktur sem einn sá besti í því að yfirstíga hindranir á vellinum," sagði Ballesteros. „Og nú þegar ég horfist í augu við mína erfiðustu viðureign á lífsleiðinni vil ég verða sá besti. Ég ætla að nota allan minn styrkleika og líka þeirra sem vilja senda mér batnaðaróskir."
