Körfubolti

NBA í nótt: Fimmtándi sigur Boston í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rajon Rondo sækir að Deron Williams í nótt.
Rajon Rondo sækir að Deron Williams í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Boston vann í nótt sigur á Utah, 100-91, og þar með sinn fimmtánda sigur í röð í NBA-deildinni í körfubolta. Níu leikir fóru fram í deildinni í nótt.

Rajon Rondo fór á kostum í leiknum í nótt og skoraði 25 stig sem er persónulegt met. Þar af skoraði hann tólf stig á síðustu fimm mínútum leiksins.

Utah, og þá helst Deron Williams, náðu að halda spennu í leiknum á síðustu mínútunum en Rondo sá ávallt til þess að Boston væri skrefi á undan. Hann var alls með níu fráköst, átta stoðsendingar og þrjá stolna bolta í leiknum.

Kevin Garnett bætti við nítján stigum og tíu fráköstum og Kendrick Perkins var með fimmtán stig og fjórtán fráköst. Paul Pierce var einnig með fimmtán stig.

Paul Millsap var með 32 stig og tíu fráköst fyrir Utah og Williams fimmtán stig.

Denver vann Dallas, 98-88. JR Smith var með 25 stig og Carmelo Anthony 23 er Denver vann sinn fjórða leik í röð.

Milwaukee vann Miami, 98-83. Michael Redd skoraði 21 stig, þar af sextán í fyrsta leikhluta. Milwaukee náði góðri forystu í byrjun leiks og náði að standa af sér áhlaup Miami undir lok leiksins.

Indiana vann Washington, 118-98. Danny Granger skoraði 27 stig og Marquis Daniels bætti við 20 fyrir Indiana. Þetta var fyrsti sigur liðsins í síðustu sjö leikjum þess.

Sacramento vann Minnesota, 118-103. Francisco Garcia skoraði 21 stig og John Salmons sautján fyrir Sacramento en þetta var fyrsti leikur Minnesota undir stjórn nýja þjálfarans, Kenny Natt.

Orlando vann Golden State, 109-98. Jameer Nelson skoraði 23 stig í síðari hálfleik og alls 32 sem er persónuleg metjöfnun.

Atlanta vann Charlotte, 83-79. Joe Johnson var með 28 stig í leiknum fyrir Atlanta og Josh Smith fimmtán.

New Jersey vann Toronto, 94-87. Ryan Anderson skoraði 21 stig fyrir New Jersey og þeir Vince Carter og Devin Harris voru með tuttugu hvor.

Phoenix vann New York, 111-103. Shaquille O'Neal var stigahæstur með 23 stig auk þess sem hann tók tólf fráköst. Amare Stoudemire og Steve Nash voru með 21 stig hvor.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×