Indverjinn Jeev Milka Singh sló við þeim Padraig Harrington og Ernie Els þegar hann lék lokahringinn á opna Singaporemótinu á 69 höggum og tryggði sér sigur.
Singh var höggi á undan þeim Harrington og Els og lauk keppni á 277 höggum eða sjö undir pari á Sentosa vellinum.
Harrington fékk skolla á 16. braut sem gerði honum erfitt fyrir og bæði hann og Els klikkuðu á púttum á síðustu holunni til að tryggja sér bráðabana.
Harrington lék lokahringinn á 70 höggum og Els á 71, en Þeir Rory McIlroy og David Gleeson frá Ástralíu deildu fjórða sætinu eftir að hafa leikið á 69 höggum á lokahringnum.
Singh er 36 ára gamall og hefur einnig fagnað sigrum í Evrópu og í Japan á árinu. Hann fékk fimm milljónir dollara í verðlaunafé fyrir sigurinn.
Phil Michelson lauk keppni á tveimur höggum yfir pari á mótinu og gekk ekki vel. Hann reiddist mjög á 18. brautinni í gær þegar áhorfandi tók mynd af honum um leið og hann sló annað höggið sitt með þeim afleiðingum að hann sló boltann í vatn.