Saklausir vegfarendur Þorvaldur Gylfason skrifar 16. október 2008 07:00 Of hraður bankavöxtur án öflugs eftirlits endar ævinlega á einn veg: með ósköpum. Þetta er hryggileg niðurstaða í ljósi nýlegrar reynslu nokkurra Asíulanda, þar sem stríðir, óheftir og eftirlitslausir fjármagnsflutningar stráfelldu gjaldmiðla, hlutabréf og banka fyrir aðeins ellefu árum. Þegar ég varaði seðlabankamenn á fundi í bankanum fyrir nokkrum árum við reynslu Taílands, þar sem ég þekki til (ég var þar skömmu fyrir hrunið), sagði einn þeirra með þjósti: Ísland er ekki Taíland. En Ísland er Taíland í þeim skilningi, að markaðsbúskaparlönd lúta í aðalatriðum sömu lögmálum. Helzti lærdómurinn af reynslu Taílands er, að gjaldeyrisforði seðlabankans þarf að duga fyrir erlendum skammtímaskuldum bankakerfisins. Til að ná því marki þarf að byggja upp forða og hemja skuldasöfnun bankanna. Hvort tveggja brást hér heima með hörmulegum afleiðingum. Sljóleiki Seðlabankans olli því, að gjaldeyrisforðinn var ekki byggður upp í tæka tíð þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um árabil. Græðgi og fyrirhyggjuleysi bankanna ollu því, að skuldir þeirra uxu upp úr öllu valdi. Umgerð bankastarfseminnar bauð upp á græðgina. Bankamenn gátu hlaðið undir sjálfa sig með því að veita sem flest lán og gera sem flest kaup. Hömluleysi var reglan. Það mesta, sem bankamennirnir áttu á hættu að missa, var vinnan. Öndvert þessari áhættu stóð vonin um tekjur, sem gátu gert þá að auðmönnum ævilangt. Sterk bein þurfti til að standast slíkar freistingar. Því fór sem fór, úr því að eftirlitið brást. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið áttu að hafa hemil á vexti bankanna með ströngu aðhaldi og eftirliti, en gerðu það ekki. Seðlabankinn átti að leggja þunga bindiskyldu á bankana, en þeir báðust undan því, og Seðlabankinn hlýddi. Eftirlit Seðlabankans með lausafé bankanna brást með öllu. Fjármálaeftirlitið átti að leita aðstoðar utan úr heimi til að laga hefðbundin álagspróf að íslenzkum aðstæðum. Það var ekki heldur gert. Bankastjórn Seðlabankans hefur reynzt óhæf og er með réttu rúin trausti. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn fléttast saman á þann veg, að einn seðlabankastjórinn situr í stjórn Fjármálaeftirlitsins og varaformaður bankaráðs Seðlabankans er stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eru of tengd innbyrðis til að geta gert fullt gagn. Helzta einkenni íslenzku veikinnar er skortur á virðingu fyrir valdmörkum og mótvægi. Þetta einkenni hefur áður gert vart við sig í okkar samfélagi og tekur á sig ýmsar myndir. Stjórnendur bankanna komu stjórnmálamönnum vel fyrir innan vébanda sinna. Einn stjórnarmanna í sjóðum Glitnis, þar á meðal Sjóði 9, sem gaf sjóðsfélögum rangar upplýsingar um samsetningu sjóðsins, var og er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem nú er seðlabankastjóri. Hvað var hann að gera inni á gafli hjá Glitni? Ýmis önnur dæmi mætti nefna. Skýrasta dæmið tekur af öll tvímæli um meinsemdina. Það er seta Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og eins helzta máttarstólpa Sjálfstæðisflokksins um aldarfjórðungsskeið, á varaformannsstóli í bankaráði Landsbankans. Kjartan átti hlut að því á sínum tíma að gera Björgólf Guðmundsson athafnamann að aðaleiganda Landsbankans, þótt viðskiptaferill og sakaskrá Björgólfs væru á allra vitorði. Kjartan sat kyrr í bankaráðinu, þar til honum var vikið frá í síðustu viku. Strax þá hefði þurft að hefja rannsókn á, hvort refsiverð brot svo sem umboðssvik voru framin, til að ákveða, hvort hneppa þyrfti eigendur og stjórnendur Landsbankans í gæzluvarðhald og frysta eignir þeirra. Landsbankinn steypti almenningi í miklar skuldbindingar gagnvart Bretum og Hollendingum með því að víkja sér undan að stofna dótturfyrirtæki utan um starfsemi sína í Bretlandi og Hollandi líkt og Glitnir og Kaupþing gerðu. Eftir situr almenningur með sárt ennið og veika von um, að eignir Landsbankans erlendis dugi fyrir skuldbindingunum. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að reyna að halda hlífiskildi yfir ýmsum þeirra, sem þyngsta ábyrgð bera á vandanum nú, þótt saklausir vegfarendur - fólkið í landinu - þurfi að axla þungar byrðar. Það má ekki verða. Ríkisstjórn, sem skortir afl eða vilja til að víkja stjórn Seðlabankans frá eftir allt sem á undan er gengið og til að gera tengdar varúðarráðstafanir, bregzt skyldu sinni og þarf sjálf að víkja fyrir nýju fólki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun Vilja miklu stærra bákn Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Geðheilbrigðismál og landsbyggðin Eydís Ásbjörnsdóttir Skoðun Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun
Of hraður bankavöxtur án öflugs eftirlits endar ævinlega á einn veg: með ósköpum. Þetta er hryggileg niðurstaða í ljósi nýlegrar reynslu nokkurra Asíulanda, þar sem stríðir, óheftir og eftirlitslausir fjármagnsflutningar stráfelldu gjaldmiðla, hlutabréf og banka fyrir aðeins ellefu árum. Þegar ég varaði seðlabankamenn á fundi í bankanum fyrir nokkrum árum við reynslu Taílands, þar sem ég þekki til (ég var þar skömmu fyrir hrunið), sagði einn þeirra með þjósti: Ísland er ekki Taíland. En Ísland er Taíland í þeim skilningi, að markaðsbúskaparlönd lúta í aðalatriðum sömu lögmálum. Helzti lærdómurinn af reynslu Taílands er, að gjaldeyrisforði seðlabankans þarf að duga fyrir erlendum skammtímaskuldum bankakerfisins. Til að ná því marki þarf að byggja upp forða og hemja skuldasöfnun bankanna. Hvort tveggja brást hér heima með hörmulegum afleiðingum. Sljóleiki Seðlabankans olli því, að gjaldeyrisforðinn var ekki byggður upp í tæka tíð þrátt fyrir ítrekaðar aðvaranir um árabil. Græðgi og fyrirhyggjuleysi bankanna ollu því, að skuldir þeirra uxu upp úr öllu valdi. Umgerð bankastarfseminnar bauð upp á græðgina. Bankamenn gátu hlaðið undir sjálfa sig með því að veita sem flest lán og gera sem flest kaup. Hömluleysi var reglan. Það mesta, sem bankamennirnir áttu á hættu að missa, var vinnan. Öndvert þessari áhættu stóð vonin um tekjur, sem gátu gert þá að auðmönnum ævilangt. Sterk bein þurfti til að standast slíkar freistingar. Því fór sem fór, úr því að eftirlitið brást. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið áttu að hafa hemil á vexti bankanna með ströngu aðhaldi og eftirliti, en gerðu það ekki. Seðlabankinn átti að leggja þunga bindiskyldu á bankana, en þeir báðust undan því, og Seðlabankinn hlýddi. Eftirlit Seðlabankans með lausafé bankanna brást með öllu. Fjármálaeftirlitið átti að leita aðstoðar utan úr heimi til að laga hefðbundin álagspróf að íslenzkum aðstæðum. Það var ekki heldur gert. Bankastjórn Seðlabankans hefur reynzt óhæf og er með réttu rúin trausti. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn fléttast saman á þann veg, að einn seðlabankastjórinn situr í stjórn Fjármálaeftirlitsins og varaformaður bankaráðs Seðlabankans er stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins. Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið eru of tengd innbyrðis til að geta gert fullt gagn. Helzta einkenni íslenzku veikinnar er skortur á virðingu fyrir valdmörkum og mótvægi. Þetta einkenni hefur áður gert vart við sig í okkar samfélagi og tekur á sig ýmsar myndir. Stjórnendur bankanna komu stjórnmálamönnum vel fyrir innan vébanda sinna. Einn stjórnarmanna í sjóðum Glitnis, þar á meðal Sjóði 9, sem gaf sjóðsfélögum rangar upplýsingar um samsetningu sjóðsins, var og er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi aðstoðarmaður forsætisráðherra, sem nú er seðlabankastjóri. Hvað var hann að gera inni á gafli hjá Glitni? Ýmis önnur dæmi mætti nefna. Skýrasta dæmið tekur af öll tvímæli um meinsemdina. Það er seta Kjartans Gunnarssonar, framkvæmdastjóra og eins helzta máttarstólpa Sjálfstæðisflokksins um aldarfjórðungsskeið, á varaformannsstóli í bankaráði Landsbankans. Kjartan átti hlut að því á sínum tíma að gera Björgólf Guðmundsson athafnamann að aðaleiganda Landsbankans, þótt viðskiptaferill og sakaskrá Björgólfs væru á allra vitorði. Kjartan sat kyrr í bankaráðinu, þar til honum var vikið frá í síðustu viku. Strax þá hefði þurft að hefja rannsókn á, hvort refsiverð brot svo sem umboðssvik voru framin, til að ákveða, hvort hneppa þyrfti eigendur og stjórnendur Landsbankans í gæzluvarðhald og frysta eignir þeirra. Landsbankinn steypti almenningi í miklar skuldbindingar gagnvart Bretum og Hollendingum með því að víkja sér undan að stofna dótturfyrirtæki utan um starfsemi sína í Bretlandi og Hollandi líkt og Glitnir og Kaupþing gerðu. Eftir situr almenningur með sárt ennið og veika von um, að eignir Landsbankans erlendis dugi fyrir skuldbindingunum. Svo virðist sem ríkisstjórnin ætli að reyna að halda hlífiskildi yfir ýmsum þeirra, sem þyngsta ábyrgð bera á vandanum nú, þótt saklausir vegfarendur - fólkið í landinu - þurfi að axla þungar byrðar. Það má ekki verða. Ríkisstjórn, sem skortir afl eða vilja til að víkja stjórn Seðlabankans frá eftir allt sem á undan er gengið og til að gera tengdar varúðarráðstafanir, bregzt skyldu sinni og þarf sjálf að víkja fyrir nýju fólki.
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun
Afhendum raunverulegum eigendum hlut sinn í Íslandsbanka til jafns Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Skoðun